RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Fréttir (155)
23.09.04   13399 
23.09.04   14013 
14.09.04 *  14544 
10.09.04   15886 
10.09.04   16321 
03.09.04   37931 
31.08.04   34308 
31.07.03   17808 
01.07.03   18684 
01.02.03   20244 
 15 af 16   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfaFormáli ársskýrslu 2000 frá formanni RNS
 

      Hinn 1. september 2000 tóku gildi lög nr. 68/2000 um rannsóknir sjóslysa og í kjölfarið reglugerð nr. 133/2001 um sama efni. Má segja að þar með hafi orðið tímamót í sögu sjóslysarannsókna á Íslandi því þetta eru fyrstu heildarlögin um rannsóknir sjóslysa á Íslandi en áður voru ákvæði þar um í siglingalögum. En segja má að upphaf sjóslysarannsókna á Íslandi hafi verið 1963 en þá var samþykkt þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að láta fara fram opinbera rannsókn á orsökum fjölmargra skipstapa sem orðið höfðu nokkur ár þar á undan. Rannsóknarnefnd sjóslysa (RNS) var í fyrstu skipuð fulltrúum hagsmunaaðila í siglingum og sjávarútvegi enda var hlutverk hennar í fyrstu nær eingöngu að fylgjast með starfi sjódóma, safna upplýsingum og miðla þeim til sjómannaskóla, sjómanna og útgerðarmanna. Með breytingu á siglingalögum 1986 var hins vegar breytt skipan RNS í núverandi horf og starfsemi nefndarinnar aukin. Þá var nefndinni gert skylt að rannsaka orsakir allra slysa þegar íslensk skip farast og öll slys þar sem manntjón varð. Einnig var nefndinni heimilt að rannsaka slys sem hún taldi ríkar ástæður til að rannsaka. Þrátt fyrir þetta breyttist rannsóknarferlið lítið og byggði nefndin áfram rannsóknir og niðurstöður sínar nær eingöngu á lögreglurannsóknum og rannsókn fyrir dómi (sjóprófum). Nefndin gat einnig sjálf óskað eftir sjóprófum þannig að í raun fór rannsókn sjóslysa fram hjá lögreglu og í sjóprófum.

     Árið 2000 varð sú mikilvæga breyting að nú eru rannsóknir RNS á sjóslysum algjörlega sjálfstæðar rannsóknir og nefndin er nú óháð stjórnvöldum, öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Nefndin annnast því sjálf rannsóknir sínar þó frumrannsókn fari oft fram í samvinnu við lögreglu. Nú er ekki heldur skylt að halda sjópróf en slíkt er heimilt í vissum tilvikum. Eftir 1. september 2000 hefur RNS aldrei farið fram á sjópróf. Hér má einnig nefna að nú er óheimilt að nota álit RNS sem sönnunargagn í opinberu máli og er það m.a. gert til þess að tryggja trúnað á milli RNS og þeirra aðila sem gefa skýrslur fyrir nefndinni. Nú skal RNS einnig gera tillögur um úrbætur í öryggismálum sjómanna eftir því sem rannsókn máls gefur tilefni til. Siglingastofnun Íslands skal síðan sjá til þess að slíkar tillögur séu teknar til formlegrar afgreiðslu hverju sinni. En tilgangur sjóslysarannsókna er sá eini að koma í veg fyrir slys um borð í skipum og að öryggi til sjós megi aukast.

     Það er hins vegar ljóst að það er ekki nægjanlegt að hafa lagaramman skýran til að rannsóknir sjóslysa nái tilgangi sínum. Það sem skiptir öllu máli er samstarf allra þeirra aðila sem hlut eiga að máli. RNS mun ekki náð árangri í sínum mikilvægu störfum nema sjómenn og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta sinni þeim skyldum sem á þá eru lagðar með lögunum um rannsóknir sjóslysa. En skipstjóri og útgerðarmaður eru meðal þeirra aðila sem skylt er að tilkynna RNS ef sjóslys verður. Jafnframt er skipstjóra skylt að annast skráningu og tilkynningu allra slysa sem verða á skipi. Það er mjög nauðsynlegt að þessir aðilar sinni þessari mikilvægu skyldu sinni. Jafnframt er mikilvægt að þeir sem hlut eiga að máli verndi vettvang eins og framast er unnt þar til rannsókn hefur farið fram og taki til varðveislu hluti sem tengjast slysi þannig að hægt sé að rannsaka þá með eðlilegum hætti.

     Rannsókn verður aldrei framkvæmd með fullnægjandi hætti nema hægt sé að rannsaka vettvang og hluti sem tengjast slysi ítarlega. Samvinna RNS við hagsmunaaðila og þá ekki síst sjómenn er því það atriði sem skiptir hvað mestu máli þegar kemur að rannsóknum sjóslysa. Því er mikilvægt að sjómenn og aðrir geti treyst því að skýrslur sem þeir gefa fyrir nefndinni eru trúnaðarmál og þær verði ekki afhentar öðrum nema í undantekningartilfellum. RNS er því mikið í mun að efla trúnað á milli hennar og hagsmunaaðila og þá er mjög mikilvægt að þeir geri sér grein fyrir því að RNS er að vinna í þágu þeirra en ekki gegn þeim. Það er ekki hlutverk RNS að finna sökudólga og á því hefur hún ekki áhuga. Það er hlutverk annarra aðila (lögreglu og ákæruvalds) að taka ákvörðun um og framkvæma opinbera rannsókn í tengslum við sjóslys.

     Í raun er það svo að RNS vill hafa sem minnst að gera. Eitt slys er einu slysi of mikið og það er úrelt sjónarmið, ef það hefur einhvern tímann átt við, að það fylgi fórnir sjósjókn við Ísland. Það eiga engir aðilar og allra síst sjómenn að sætta sig við að sjóslys fylgi sjósókn við Íslandsstrendur. Það á að vera stefna allra að útrýma slysum á sjómönnum. Önnur niðurstaða er ekki ásættanleg að mati RNS. Það má því öllum vera ljóst að í þessu sambandi skipta forvarnir öllu máli. Fræðsla skiptir því meginmáli þegar kemur að því að fækka og loks útrýma sjóslysum. Það er mjög mikilvægt að allir aðilar, ekki bara stjórnvöld, átti sig á þessu atriði. Það á ekki bara að ræða um forvarnir á hátíðisdögum og þeir sem hlut eiga að máli, ekki síst sjómenn, verða að gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra. Ber að þakka það sem vel er gert á því sviði þó alltaf megi gera betur. Það er því fagnaðarefni hvað núverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson hefur sýnt öryggismálum sjómanna mikinn áhuga og það í verki.

     Það var ljóst þegar núgildandi lög um rannsóknir sjóslysa tóku gildi haustið 2000 að starfsemi RNS myndi aukast mikið. Aðallega vegna þess að nú skal nefndin framkvæma sínar rannsóknir nær eingöngu sjálf. Það var því ljóst að fjölga þurfti starfsmönnum RNS en hjá nefndinni hafði verið einn starfsmaður. Í lok október 2001 lét Kristján Guðmundsson af störfum hjá nefndinni. Þá var ráðinn framkvæmdastjóri fyrir nefndina Jón Arilíus Ingólfsson skipstjóri og rekstrarfræðingur og einnig var ákveðið að í ársbyrjun 2002 myndi Guðmundur Lárusson skipstjóri hefja störf sem fulltrúi hjá nefndinni. Vænta nefndarmenn mikils af störfum þessara manna enda hafa þeir mikla reynslu og kunnáttu af sjómennsku og öðrum þáttum sem skipta máli í starfi þeirra. Þá var ákveðið í kjölfar gildistöku nýju laganna að flytja aðsetur nefndarinnar frá Reykjavík til Stykkishólms og var það gert í lok árs 2001.

     Það beið því nýrri rannsóknarnefnd sjóslysa mikið starf 1. september 2000 þegar nýju lögin tóku gildi. Endurskipuleggja þurfti starf nefndarinnar frá grunni og ekki síst að ,,nútímavæða” það þ.e. að taka nýja tækni í notkun við vinnu nefndarinnar. Þá var m.a. ákveðið að útbúa öfluga heimasíðu fyrir nefndina en það starf hefur tekið lengri tíma en vonast var til í upphafi. Á móti kemur hins vegar að menn hafa væntingar um það að heimasíðan verði mjög öflug og geti komið nefndinni og hagsmunaðilum að miklum notum í framtíðinni. Þá þurfti nefndin að vinna upp nokkurn málahala en í framtíðinni stefnir nefndin að því að öll alvarlegri mál verði afgreidd innan þriggja mánaða frá því að slys verður. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort þau góðu áform nái fram að ganga.

     Það hafa ekki bara verið nefndarmenn sem hafa haft ærinn starfa síðan 1. september 2000 heldur hafa hinir nýju starfsmenn nefndarinnar lagt á sig mikla vinnu við að koma starfi nefndarinnar í eðlilegt horf. Því má fullyrða að allir hafi lagst á eitt við að efla RNS og gera starf hennar skilvirkt.
Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum og hinum nýja framkvæmdastjóra nefndarinnar fyrir mjög ánægjulegt samstarf á árunum 2000 - 2001. Jafnframt skulu þökkuð góð samskipti við samgönguráðherra og starfsfólk hans.

     Að endingu hvet ég alla sem hlut eiga að máli að leggja allt sitt að mörkum til að útrýma sjóslysum við Íslandsstrendur. Það tekst ekki nema með sameiginlegu átaki allra sem að því borði koma. Fyrir hönd RNS votta ég öllum sem um sárt eiga að binda eftir sjóslys á árunum 2000-2001 samúð nefndarinnar og set fram þá ósk að starf nefndarinnar megi verða til þess að sjóslysum a.m.k. fækki í framtíðinni.

 

Ingi Tryggvason formaður RNS


 

 
 
 Heimsóknir: 14545 Uppfært: 20.09.04 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [3.229.142.91] laugardagur 23. október 2021 03:13 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis