RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (2790)
125/03  58984-23.09.04
130/03  42427-23.09.04
132/03  42285-23.09.04
134/03  42091-23.09.04
136/03  48200-23.09.04
093/03  43318-23.09.04
109/03  40126-23.09.04
122/03  44652-23.09.04
001/04  51002-23.09.04
079/03  44140-23.09.04
 272 af 279   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 003/04  - Húni KE 4
  Húni KE 4, leki og sekkur en næst í land   
 Heimsóknir: 102982 Uppfært: 23.09.04 

  Húni KE 4
Skipaskr.nr.: 7357
Smíðaður: Hafnarfirði 1992 plast
Stærð: 6,20 brl; 5,80 bt
Lengd: 8,59 m Breidd: 2,57 m Dýpt: 1,54 m
Vél: Cummins 187,00 kW Árgerð: 1999
Annað: 
Fjöldi skipverja: 1 

 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 6. janúar 2004 var Húni KE 4 á siglingu til Kópavogshafnar af miðunum vestur af Vestrahrauni í Faxaflóa.  Veður:  Hægviðri og minnkandi kvika.

 

Húni KE fór til línuveiða frá Kópavogi um klukkan kl. 04:00 um morguninn og var drætti lokið á milli kl. 18:30 til 19:00.  Eftir að gengið hafði verið frá aflanum, sem var um 1,5-2 tn, veiðarfærum og annar búnaður sjóbúinn, var haldið til lands og siglingu hagað eftir aðstæðum eða undir 10 hnúta ferð.

 

Eftir um 30 mínútna siglingu kviknaði gaumljós í stýrihúsi sem sýndi að lensidæla í vélarrúmi hafði farið í gang.  Skipstjórinn minnkaði ferð og fór aftur á þilfarið til að athuga í vélarrúmið. Á leiðinni hugði hann að tveimur belgjum sem héngu á bakborðssíðunni og gætu skafið sjó inn í bátinn.  Þegar hann hafði stytt í öðru belgjabandinu og snéri sér að hinu byrjaði báturinn að síga til bakborða og virtist ekki ætla að hætta.  Hann fór fram í stýrishús til að setja á ferð og beygja til að rétta af hallann.  Þegar hann hafði rétt tekið um stýrið var eins og báturinn missti flotið, sökk hratt niður á skutinn og við það lokaðist skipstjórinn inni í stýrishúsinu.  Skipstjórinn komst út úr stýrishúsinu sem var þá komið á kaf en hann komst upp á stefnið sem stóð upp úr. 

 

Björgunarbáturinn, sem búinn var sjósleppibúnaði var í kafi og umvafinn veiðarfærum.  Báturinn losnaði ekki úr festingum.  Skipstjórinn fór úr sjógalla og stígvélum til að létta á sér og batt sig við rekkverk á stefninu á meðan hann beið björgunar.  Af ótta við að festast í veiðarfærum ákvað hann að reyna ekki að fara niður að björgunarbátnum og freista þess að losa hann.

 

Kl. 19:55 kom fram á skjá sjálfvirku tilkynningaskyldunnar (STK) að báturinn var hættur að senda boð um staðsetningu.  Síðasta merki hans kom kl. 19:47 á stað 64°21’00N og 23°15’V.  Reynt var að ná síma- og fjarskiptasambandi við bátinn og voru nærstödd skip beðin að svipast eftir honum.  Kl. 20:20 var Sólborg RE 76, sem var í 5 sml. fjarlægð, beðin að sigla í átt að síðasta þekkta stað Húna KE.

 

Sólborg RE upplýsti að Vigri RE 71 léti reka þar skammt frá og bað TSK hann einnig að hefja leit.  Þá var Landhelgisgæslu Íslands tilkynnt um stöðu mála og björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein, sem var á leið inn til Sandgerðis, beðið að sigla þegar til leitar.

 

Um kl. 20:58 tilkynntu bæði Sólborg RE og Vigri RE að þau hafi séð dauft ljós eða glampa skammt frá og að maður væri á stefni bátsins sem maraði í kafi.  Skipverjum á Sólborgu RE tókst að bjarga skipbrotsmanninum köldum og þrekuðum á stað 64°19’N og 23°15’V.

 

Kl. 23:37 kom Sólborg RE 76 til Sandgerðis með skipbrotsmanninn og var honum komið á sjúkrahús til aðhlynningar.

 

Að ósk TSK fór björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein á slysstaðinn og tók það Húna KE í tog til Sandgerðis, marandi í kafi.

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að á leið á miðin um morguninn varð skipstjórinn var við að högg kom á bátinn og eitthvað fór í skrúfuna og taldi hann það hafi verið bauja.  Við það dró niður í vélinni.  Eftir að skipinu var bjargað kom í ljós að báturinn hafði auðsjáanlega fengið í skrúfuna og voru töluverðar ákomur á umhverfi hennar;
 • að skipverjinn hafði verið við störf í um 16 klst.;
 • að aflinn var í þremur körum á þilfari, tveimur bakborðsmegin og einu stjórnborðsmegin auk tveggja kara í lest og fisks í lestarstíu;
 • að skipstjórinn ætlaði að spúla þilfarið og sjálfan sig áður en hann lagði af stað í land en enginn sjór kom úr slöngunni og lét hann hana því falla aftur á þilfarið.  Hann var ekki viss um að hann hefði slökkt á spúldælunni aftur.  Eftir að báturinn kom á land kom í ljós að slökkt hafði verið á spúlnum.
 • að svo virtist sem lensiopin lensuðu eðlilega aftur úr afturgafli bátsins áður en haldið var til lands, en að sögn skipstjóra hafði hann dregið glæran plastpoka út úr lensiventlinum bakborðsmegin þegar hann skoðaði bátinn þar sem hann stóð á landi;
 • að sögn skipstjóra var talsverður stafnhalli aftur á siglingunni en ekki ljóst hvað mikill.  T.d. þarf aðeins um 8° stafnhalla aftur til að um 0,3m3 af sjó nái til sjálfvirka rofans við lensidæluna sem fór af stað.  En ljóst er að töluvert meira magn hefur verið í rýminu miðað við hvernig fór á svo skömmum tíma.  Við alla aukningu á stafnhalla eykst magnið mjög hratt og t.d. við 10° halla væri það komið í um 0,7 m3 til að ræsa dæluna;
 • að þrjár lensidælur með flotrofa voru um borð.  Tvær í vélarrúminu, önnur fram við vélarrúmsþilið og hin á vélinni auk þess sem ein var fremst í lestinni.  Allar þessar dælur virtust í lagi við skoðun;
 • að skipstjórinn taldi að sjór hefði líklegast komist í bátinn með belgjunum á síðunum;
 • að báturinn var töluvert skemmdur þegar hann kom í land.  Þegar verið var að draga bátinn inn innsiglinguna til Sandgerðis tók bátinn, sem var marandi í kafi, niðri.  Þá féll báturinn til botns þegar tóg slitnaði við hífingu hans í land.  Við skoðun komu í ljós miklar ákomur og göt á skut auk þess sem stýrisarmur var laus og óþéttur og festing hans að innan brotinn frá að ofanverðu;
 • að í eftirfarandi töflu (sjá gögn) koma fram þekktar þyngdir eftir að drætti lauk:
 • að sjódælan var ný og af gerðinni RULE og var tengd við botnventil með sléttum flangs á botni bátsins.  Slanga frá henni lá aftur og upp með skutgafli;
 • að til þess að gúmmíbjörgunarbáturinn losnaði með hjálp sjósleppiloka þurfti hann að sökkva niður á a.m.k. 1,5 til 4 metra dýpi til að hann losaði festingar bátsins.  Þegar björgunaraðilar hófu drátt á bátnum marandi í kafi losnaði gúmmíbjörgunarbáturinn og flaut upp.
 
 

 Nefndarálit
 

Ljóst er að umtalsverður sjór komst í bátinn.  Vegna skemmda á bátnum við björgunina treystir nefndin sér ekki til að setja fram eina sérstaka tilgátu um ástæður þess.  Það sem helst gæti komið til greina eru:

 

a)     Leki með stýrisstamma vegna skemmda eftir að báturinn fékk í skrúfuna.

b)     Belgirnir á síðunni hafi náð að skafa sjó inn á þilfarið og lensport stífluð.

c)     Leki hafi verið í gegnum sjódælu vegna yfirþrýstings og lensport einnig stíflað. 

 

Einnig gæti hafa verið um samverkandi þætti einhverra eða allra þessara atriða að ræða.

 

Nefndin hvetur skipstjórnendur að huga vel að mögulegum skemmdum þegar þeir fá í skrúfuna á siglingu.

 

Að þegar sjódæla er ekki í gangi sé vel hugað að mögulegum yfirþrýstingi sem getur myndast og þar með valdið óæskilegum leka úr spúlslöngu.   
 

Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [34.232.62.209] miðvikudagur 27. maí 2020 00:38 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis