RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (2790)
106/19  5104-04.05.20
105/19  5106-04.05.20
104/19  4982-04.05.20
103/19  3959-04.05.20
093/19  8229-04.05.20
090/19  6423-04.05.20
074/19  9991-04.05.20
077/19  3915-20.04.20
081/19  4402-20.04.20
084/19  4397-20.04.20
 1 af 279   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 068/02  - Sunna SI-67
  Sunna SI-67, léttbáti með þremur mönnum hvolfir við skipshlið   
 Heimsóknir: 22516 Uppfært: 23.09.04 

  Sunna SI-67
Skipaskr.nr.: 2061
Smíðaður: Castropol, Spáni 1991 Stál
Stærð: 620,00 brl; 996,00 bt
Lengd: 53,17 m Breidd: 10,50 m Dýpt: 7,00 m
Vél: MAN B&W Alpha 2.640,00 kW Árgerð: 1991
Annað: 
Fjöldi skipverja: 13 

 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 27. maí 2002 var Sunna SI-67 á rækjumiðunum á Flæmska Hattinum.  Veður: SV 4-5 m/sek

 

Upp úr kl. 01:00 var ferð minnkuð og siglt samsíða Pétri Jónssyni RE því fyrirhugað var að senda mannskap milli skipanna og yfir í Pétur Jónsson.  Léttbát var slakað í sjó með þremur skipverjum innanborðs og vél bátsins sett í gang meðan á slökun stóð.  Þegar báturinn snerti sjóinn var skrúfu kúplað inn og sett á ferð áður en búið var að húkka bátnum úr króknum.  Mönnum greinir aðeins á hvernig atvikum var háttað á þessu stigi en ljóst er að bátinn dreif frá síðunni og tók þá gilsinn í með þeim afleiðingum að honum hvolfdi.  Híft var í gilsinn aftur og réttist þá báturinn við með tveimur bátsverjum hangandi í honum en einn seig aftur með síðunni ásamt lausum búnaði bátsins.

 

Haft var samband við Pétur Jónsson RE og beðið um aðstoð við að bjarga manninum sem var í sjónum. Jafnframt því var léttbáturinn mannaður á ný og náðu þeir að bjarga skipverjanum rétt áður en léttbátur frá Pétri Jónssyni RE kom á staðinn.  
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að krókurinn í gilsinum var lokaður.  Til að losa úr króknum þurfti að lyfta hnakkanum upp til að opna hann;
 • að fangalína (langlína) var fram af bátnum en ekki rétt notuð þar sem slaki var á henni;
 • að stjórntæki utanborðsvélarinnar voru ekki í því standi sem eðlilegt má teljast og var stjórnanda kynnt það áður en farið var í bátinn.  Bensíngjöf í handfangi vélarinnar var biluð og var vír tekin út úr vélarhlífinni til hliðar við handfangið til stjórnunar á henni;
 • að stjórnandi bátsins kvaðst vera vanur stjórnun svona báta.  Stjórnandi bátsins hafði þó ekki stjórnað þessum bát áður heldur á öðrum skipum.  Skipverjar höfðu ekki fengið leiðbeiningar um meðferð hans, utan galla í stjórntökum hans eins og áður segir;
 • að í sama mund og stjórnandi bátsins kúplaði inn bætti hann við bensíngjöfina en fannst hún verða of mikil.  Hann var að bogra við að stilla aflið þegar óhappið átti sér stað og að hans sögn gæti hann hafa lagst á vélina og beygt til bb. án þess að gera sér grein fyrir því.  Hann vissi ekki til þess að það tæki í langlínuna og fylgdist ekki sérstaklega með því;
 • að sögn stjórnanda, eftir á að hyggja, hefði átt að láta langlínuna um að taka við bátnum þegar hann kom í sjó og klára að húkka gilsinum úr áður en kúplað var að skrúfu og vél sett á ferð;
 • að misræmi er í áliti manna um hvað gerðist en að sögn bátsverja í miðrúmi kom skvetta, sem kastaði bátnum frá síðunni.  Hann telur að langlínan hefði ekki komið að notum við þessar aðstæður.  Skipstjóri í brú taldi að báturinn hefði verið keyrður frá skipinu áður en húkkað hafði verið úr;
 • að sögn bátsverja í stafni strekktist ekki á langlínunni og losaði hann hana frá bátnum þegar hann sá að erfiðlega gekk að húkka gilsinum úr og var hann á leið í miðrúmið til að hjálpa félaga sínum við gilsinn þegar bátnum hvolfdi;
 • að litlar sem engar æfingar voru um meðferð bátsins þó svo að hann hafi hlutverk í björgunaræfingum þegar maður fellur fyrir borð;
 • að kastað var björgunarhring með ljósi til mannsins þegar hann seig aftur með síðu skipsins;
 • að maðurinn var klæddur í flotvinnubúning;
 • að sögn skipverja voru flotvinnubúningarnir í lélegu ástandi;
 • að neyðarflugeldar voru í léttbátnum og náði maðurinn til þeirra í sjónum og skaut upp ljósi;
 • að skipverjar á Sunnu höfðu stöðugar gætur á manninum í sjónum og gættu þess að missa ekki sjónar á honum;
 • að skipverjar á Pétri Jónssyni brugðust skjótt við að manna léttbát til björgunaraðgerða.
 
 

 Nefndarálit
 

Orsök slyssins eru röng handtök bátsverja um meðferð bátsins sem má rekja til ófullnægjandi æfinga skipverja.  Einnig leiddi ástand á bensíngjöf til þess að stjórnandi hafði ekki eðlilega yfirsýn á aðstæðum.

 

Nefndin bendir á að samkvæmt reglugerð um öryggi fiskiskipa 26/2000 ber að æfa sjósetningu léttbáta með áhöfn eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti.  Mikilvægt er þegar léttbátar eru sjósettir að fangalína (langlína) bátanna sé ávalt strekkt þegar léttbátur nemur við sjóflöt þannig að hann dragist með skipinu meðan krók er húkkað úr.

 

Nefndin bendir útgerðar- og skipstjórnarmönnum á nauðsyn þess að verklagsreglur séu til um meðferð og rétt handtök við léttbáta og þjálfun skipverja sé í samræmi við reglugerðir nr. 26/2000, 785/98 og 786/98 þar sem ríkar skyldur eru lagðar á þessa aðila að sjá um þjálfun skipverja. 
 

Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [34.204.193.85] mánudagur 25. maí 2020 13:30 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis