Þann 9. mars 2004 var Baldvin Þorsteinsson EA 10 á loðnuveiðum ásamt fleiri skipum fyrir utan Skarðsfjöru á Meðallandsbugt. Veður: SA 11 m/s, þoka, 8°c og norðurfall. Háflóð kl. 07:30.
Baldvin Þorsteinsson EA fór frá Seyðisfirði um kl. 08:30 um morguninn, hélt suður með Austfjörðum og kom á svæðið við Skarðsfjöruna um kl. 23:00 um kvöldið. Voru þá nokkur skip á veiðum þar.
Um kl. 03:00 voru skipverjar um það bil hálfnaðir að draga nótina, í síðasta kasti áður en halda átti til löndunar, þegar hún flæktist í skrúfu skipsins. Um borð í skipinu voru um 1.800 tonn af loðnu.
Bjarni Ólafsson AK 70 var fenginn til að reyna að toga í Baldvin Þorsteinsson EA, fyrst með tvöföldu landfestartógi en það slitnaði eftir nokkrar mínútur. Landfestartógið var frá Baldvini Þorsteinssyni EA. Þá var komið snurpuvír á milli skipanna en við að reyna að toga gaf spilið sig um borð í Bjarna Ólafssyni AK. Baldvin Þorsteinsson EA rak því stjórnlaust að landi. Snurpuvírinn var frá Bjarna Ólafssyni AK.
Við þessar aðgerðir tók Bjarni Ólafsson AK niðri auk þess sem brot kom á skipið með þeim afleiðingum að einn skipverja slasaðist. Hann kastaðist til á þilfarinu og lenti illa með þeim afleiðingum að hann bólgnaði á hendi.
Baldvin Þorsteinsson EA strandaði um kl. 05:05 á stað 63°33'N og 17°53,147V sem var um 0,3 sml frá landi og 3,3 sml NA af Skarðsfjöruvita. Vel gekk að ná skipverjum frá skipinu með þyrlu LHG.

Tímasetningar og atvikaskráning:
03:12 Skipstjóri Baldvins Þorsteinssonar EA-10 tilkynnir að skipið hafi fengið nótina í skrúfuna á stað 63°31.5N 017°53.2V sem var um 1,8 sml
frá landi. Veður: SSV 25 hnútar og 2m ölduhæð. Bjarni Ólafsson AK-70 reynir að koma línu yfir í Baldvin Þorsteinsson EA.
03:22 LHG í sambandi við Baldvin Þorsteinsson EA. Illa gekk að koma línu á milli skipanna. Notast við hliðarskrúfu.
03:28 LHG - Útkall "BRAVO"
03:38 Varðskip upplýst um stöðu mála.
03:40 Stjórnstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli JRCC og Reykjavík Radíó TFA látið vita um stöðu mála
03:46 Baldvin Þorsteinsson EA – landfestartóg slitnaði, reynt að koma annarri taug fyrir.
03:47 Þyrla LHG TF-LIF ræst út. Reynt var (kl. 04:02) að fá þyrlu frá JRCC með en hún gat ekki farið í loftið fyrr en kl. 06:30.
03:49 Samband við Baldvin Þorsteinsson EA - Hliðarskrúfur halda engu. Gengur ekkert að ná línu úr Bjarna Ólafssyni AK.
04:15 Neyðarlínan upplýst og hún lætur lögregluembætti staðarins vita um ástandið.
TFA - Ræsir út björgunarsveitir.
04:20 Útkall rauður á svæði 16, Landsbjörgu. Björgunarsveitirnar Víkverji og Kyndill.
04:26 TF-LIF flugtak. ETA 06:00 á strandstað.
- Baldvin Þorsteinsson EA búinn að taka niðri.
04:35 Baldvin Þorsteinsson EA - Taug slitnar.
04:45 Fyrstu björgunarsveitarmennirnir fara frá Vík.
04:59 Baldvin Þorsteinsson EA er kominn inn fyrir ytri brimgarðana. Lætur akkeri falla.
05:13 Baldvin Þorsteinsson EA strandaður á stað 63°33.17N - 017°53.14V. Brýtur ekki mikið á honum.
05:30 Þyrla JRCC fer í loftið. ETA um kl 07:30
05:30 Björgunarsveit fer fá Klaustri.
05:35 Vestmanneyjaflugvöllur BIVM beðinn um að athuga eldsneyti fyrir þyrlur.
05:36 TÝR á leið á strandstað. Siglir á 10 hnúta hraða, í miklum sjó.
05:41 Baldvin Þorsteinsson EA upplýstur um að þyrla komi um kl. 06:10. Skipið með bæði akkeri úti, hálfflýtur, báðir hlerar úti. Vindur 60° á borð.
05:44 Vestmanneyjaflugvöllur tilkynnir að ekkert þyrlueldsneyti sé til hjá þeim.
06:01 Fyrstu björgunarsveitir komnar á strandstað. Þyrla LHG biður um lágmarks ljósanotkun í landi
06:04 Hugmyndir LHG um að létta skipið. Skipverjar á Baldvin Þorsteinsson EA mæla ekki með því.
06:05 Þyrla LHG komin yfir strandstað – óskar eftir ákvörðun um mannaflutninga.
06:07 Ákveðið að áhöfnin verði hífð um borð í þyrlu LHG.
06:17 Þyrla LHG ítrekar minni ljósanotkun í fjörunni.
06:25 TF-LIF byrjuð að hífa skipbrotsmenn frá borði
06:30 Stjórnstöð á Klaustri mönnuð og allir björgunarsveitarmenn komnir í fjöru.
06:45 14 manns úr áhöfn komnir um borð í þyrlu LHG.
06:48 Allir skipverjar komnir um borð í TF-LIF. Fer með þá í fjöruna.
06:50 Haft samband við RNS.
06:56 TF-LIF fer af stað til Víkur með 11 skipverja. Skipstjóri og fjórir aðrir skipverjar verða eftir á strandstað.
07:05 Vegna veðurs er ákveðið að fara með alla til Víkur en ekki á Kirkjubæjarklaustur.
07:06 Baldvin Þorsteinsson EA snýr með stefni út.
07:12 Landhelgisgæsla tilkynnir að varðskip verði á staðnum eftir 5-6 klst. Segir að ekki verði þörf á mannskap í landi þegar farið verði að losa
skipið.
07:20 TF-LIF lent á Vík með 11 skipbrotsmenn.
07:46 Skipstjóri og fjórir úr áhöfn yfirgefa strandstað, fara með bsv. til Víkur.
08:13 Flestir úr bsv. fara af vettvangi. Fimm menn eftir á strandstað.
14:40 Eigendur skips fara á strandstað.
Svæðisstjórn bsv. hafa yfirumsjón með vöktum á strandstað að beiðni lögreglu og eigenda skipsins.
Bjögunarferlið:
Eigendur og útgerðaraðilar Baldvins Þorsteinssonar EA höfðu yfirumsjón með björgunaraðgerðum.
Dagur 1. (9. mars 2004)
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og Álftaveri ásamt TF-LÍF þyrlu Landhelgisgæslunnar komu á strandstað við Skarðsfjöruna. Vindur stendur að landi.
Varðskip á leið á strandstað og ætlar að reyna að draga Baldvin Þorsteinsson EA á flot á flóðinu síðdegis. Háflæði við Skarðsfjöru var klukkan 19:15. Varðskipið var væntanlegt á strandstað um hádegið.
Veðurspáin fyrir svæðið er ekki of góð. Spáð var sunnan og suðvestan 10 til 15 m/s og átti hvessa um kvöldið.
Dagur 2. (10. mars 2004)
Varðskip átti að reyna að ná Baldvini Þorsteinssyni EA af strandstað á kvöldflóðinu.
Útgerðarfélag og tryggingaraðili skipsins semja við norskt fyrirtæki um leigu á sérhæfðu dráttarskipi, Normand Mariner, til að draga Baldvin Þorsteinsson EA af strandstað.

Normand Mariner lagði af stað frá Bergen kl. 10:00 að íslenskum tíma og sigldi á 15 mílna hraða. Áætlaður siglingatími til Íslands var um tveir og hálfur sólarhringur.
Norska dráttarskipið “Normand Mariner”:
Dráttarskipið Normand Mariner var í eigu Solstad Supply og hafði Seabrokers Chartering AS í Noregi milligöngu um leiguna. Normand Mariner var af gerðinni Ulstein A101 og var 82 metra langt og 20 metra breitt. Það var með samtals 23.478 hestafla vélar, sem gefa 282 tonna togátak frá skrúfum þess. Skipið var einnig búið tveimur hliðarskrúfum að framan 1100 kW og 1200 kW og tveimur að aftan, hvor um sig 880 kW. Skipið var með tvær dráttarvindur, 400 tonna og 500 tonna, þrjá þilfarskrana, tvær hjálparvindur hvor með um 170 tonna átaki og ýmsan annan sérhæfðan búnað. Skipið var búið svokölluðu Dynamic Position System stýrikerfi, sem heldur skipinu stöðugu á ákveðnum stað.

Einnig var samið um leigu á 2.500 m löngu dráttartógi, sem þoldi 800 tonna átak. Þetta er tóg, sem flýtur á sjónum og er í 500 m lengjum, sem lásaðar eru saman með sérstökum búnaði. Tógið kom með Normand Mariner.
Kl. 14:30 óskar eigandi skipsins að björgunarsveitir komi með bát og fluglínutæki á strandstað.
Aðili frá rannsóknarnefnd sjóslysa kom á strandstað, til ræða við aðila og skoða aðstæður. Veður hamlar björgunaraðgerðum og þeim frestað.
Dagur 3. (11. mars 2004)
TF-LIF fer með ellefu skipverja um borð í Baldvin Þorsteinsson EA kl. 16:15. Skipið skoðað, gengið frá öllu lauslegu og línu skotið í land. Aðgerðum frestað um kl. 17:00.
Dagur 4. (12. mars 2004)
TF-SIF fer með skipverjanna út í skipið kl. 14:15. Skipverjarnir vinna að undirbúningi björgunar. Norski dráttarbáturinn, Normand Mariner, kominn á staðinn.

Björgunarsveitir flytja tóg frá Bakkakoti að strandstað. Trossur fluttar út í norska dráttarbátinn, Normand Mariner. Einn skipverja fer um borð í dráttarbátinn. TF-SIF flytur mannskap í land kl. 19:45. Aðgerðum hætt um kl. 23:00.
Dagur 5. (13. mars 2004)
Björgunarsveitarmenn leggja af stað á strandstað kl. 08:00 en þurfa að bíða við Bakkakot til kl. 13:00 vegna sandstorms á strandstað.
TF-SIF fer með skipverjana út í skipið kl. 13:40. Skipverjarnir vinna að undirbúningi björgunar. Lögreglan lokar aðgengi almennings inn á svæðið.
Tóg flutt frá Bakkakoti á strandstað.
Dagur 6. (14. mars 2004)
TF-SIF fer með skipverjanna út í skipið kl. 08:00. Skipverjar koma dráttarkeðjum fyrir í klussi og festa þær í stálsamloku. Því lokið á hádegi. Nótin skorin úr skrúfunni.
Þyrlan notuð til flytja togvír í fjöruna. Dráttartaugin tekin og tengd um borð í Baldvin Þorsteinsson EA. Hún átti að þola 450 tonna átak. Byrjað að reyna að draga skipið á flot á kvöldflóðinu eða upp úr kl. 23:00.
Aðili frá rannsóknarnefnd sjóslysa kom og fylgdist með á strandstað.
Dagur 7. (15. mars 2004)
Norska dráttarbátnum Normand Mariner tókst að draga Baldvin Þorsteinsson EA um 300 m um kl. 00:30. Hluta úr loðnufarmi dælt fyrir borð til að létta skipið. Taugin slitnaði við um það bil 180 tonna átak kl. rúmlega 01:00. Ekki tókst að koma dráttartauginni fyrir aftur. Veðurspá góð.
Tóg flutt frá Bakkakoti á strandstað.
Dagur 8. (16. mars 2004)
Baldvin Þorsteinsson EA færðist nær landi og snérist þannig að stefnið var í átt að land. Öllum sjó og loðnufarmi dælt í sjóinn. Dráttartaug komið fyrir.
Dagur 9. (17. mars 2004)
Norska dráttarbátnum Normand Mariner tókst að draga Baldvin Þorsteinsson EA á flot upp úr kl. 02:00. Byrjað var að snúa skipinu í fjörunni upp úr kl. 01:00.
Það tókst að ná Baldvini Þorsteinssyni EA á flot upp úr kl. 02:00.
Björgunarsveitir hreinsuðu fjöruna og var því lokið um kl. 17:00.
Tæki sem komu að verkinu frá björgunarsveitum voru m.a. torfærubifreið, stjórnstöðvarbifreið, bátur, 3 sett af sjóbjörgunarbúnaði og handtalstöðvar.
Allan tímann sem skipið var á strandstað vöktuðu björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitunum Víkverja, Kyndli og Lífgjöf skipið.
Eftirmáli og skemmdir:
Ákveðið var í fyrstu að draga Baldvin Þorsteinsson EA til Eskifjarðar en frá því var horfið þegar skipin voru lögð af stað og haldið til Noregs. Baldvin Þorsteinsson EA var dreginn til Monkstad í Noregi og var komið þangað þann 19. mars 2004. Skipið var tekið í flotkví hjá Miklebust-skipasmíðastöðinni rétt við Álasund.
Í ljós kom að stálplata ofan á stýri var beygluð og sveigð upp á við þannig að stýrið virkaði ekki. Töluverð vinna var einnig við gír og kúplingu.
Sjópróf voru haldin á Akureyri þann 25. mars 2004, mál nr. P-/2004 að beiðni Samherja hf., útgerðarfélags skipsins.
|