RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (2930)
030/21  36418-15.11.21
025/21  38003-15.11.21
024/21  37265-15.11.21
011/21  60911-15.11.21
009/21  205490-15.11.21
006/21  156809-15.11.21
061/21  22859-15.11.21
056/21  30921-15.11.21
049/21  33297-15.11.21
048/21  33067-15.11.21
 1 af 293   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 084/02  - Guðrún Gísladóttir KE 15
  Guðrún Gísladóttir KE 15, strandar og sekkur við Lofoteneyjar í Noregi   
 Heimsóknir: 45971 Uppfært: 23.09.04 

  Guðrún Gísladóttir KE 15
Skipaskr.nr.: 2413
Smíðaður: Huangpua Kína 2001 Stál
Stærð: 1.301,00 brl; 2.626,00 bt
Lengd: 71,48 m Breidd: 14,00 m Dýpt: 9,65 m
Vél: Bergen Diesel 5.299,00 kW Árgerð: 2001
Annað: 
Fjöldi skipverja: 20 

 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 18. júní 2002 var Guðrún Gísladóttir á siglingu í sundinu Nappstraumen við Lófóteyjar í Norður-Noregi á leið til Leksnes til löndunar á síld.  Veður: Hægviðri og ládautt.

 

Skipið hafði verið á síldveiðum austarlega í lögsögu Svalbarða.  Skipið var komið með 870 tonn af frystum síldarflökum sem landa átti í Leksnes eins og gert hafði verið tæpum tveimur vikum áður.  Skipstjórinn hafði kynnt sér möguleika á að stytta siglinguna til hafnar um 30 sjómílur með því að fara um Nappstraumen sund.  Til þess hafði hann yfir að ráða nýjustu útgáfu af sjókorti af svæðinu.  Til að gæta alls öryggis hafði hann fengið upplýsingar frá leiðsögumanni í Noregi, í gegnum útgerðarstjóra skipsins, um að leiðin væri mjög greiðfær en nefnir þó að þeir bendi mönnum ekki sérstaklega á að fara þessa siglingaleið.

 

Siglingin í gegnum Nappstraumen sundið gekk vel og þegar komið u.þ.b. 2,4 sml. vestur af Svinö var haldin leið (sjá mynd 2) sem stytti siglinguna um 3,8 sml. miðað við rétta siglingaleið.  Samkvæmt sjókorti átti dýpið að vera minnst 14 m á þessari völdu siglingaleið.  Djúprista skipsins var 8 m framan og aftan.

 

Skipstjórinn var sjálfur við stjórn skipsins og stóðust dýptartölur lengst af samkvæmt dýptarmælingum nákvæmlega eins athugað hafði verið fyrir ferðina og verið sett í siglingaáætlun.  Hann hafði minnkað ferðina og sigldi einungis á 6 hnúta ferð.  Eftir um það bil 1,3 sml. siglingu steytti skipið skyndilega á grunni og strandaði á stað 68°02´59N og 13º29´5A (sjá mynd 2).  Skipstjórinn leit strax á dýptarmælinn og sá að grynnt hafði mjög snögglega.  Aðalvélin drap á sér við strandið og skipstjórinn kúplaði frá.

 

 

Samkvæmt sjókorti átti ætluð siglingaleið að vera 29-40 m djúpur áll á því svæði þar sem skipið strandaði en reyndist einungis vera 5-6 m á kafla.  Ljóst var strax að gat hafði komið á skipið og sjór fossaði inn í það.  Mikill stjórnborðshalli kom hratt á skipið og var óttast um tíma að það mundi velta alveg.

 

Sent var út neyðarkall og óskað eftir afkastamikilum dælum og björgunarbátar settir út. Um tuttugu mínútum eftir strandið var öll áhöfnin komin í björgunarbáta.  Fljótlega eftir það sáu menn að skipið var hætt að síga á hliðina og var þá komið með 45° halla þegar það stöðvast.

 

Skipverjarnir voru teknir um borð í varðskip rúmum hálftíma eftir að þeir yfirgáfu skipið.  
 

 Við rannsókn kom fram
 

 

·         að siglingin var með eftirfarandi hætti: 

 

o        Farið var eftir nýjustu útgáfu af sjókorti nr. 72 og gerð siglingaáætlun áður en ferðin um sundið hófst.

o        Siglingaáætlun hafði verið sett í “plotter” og farið nákvæmlega eftir henni ásamt því að sérstök athugun var gerð á leiðinni um að allar merkingar og dýptartölur bæru saman við það sem fram kom í sjókorti.

o        Að mati skipstjórans var valin dýpsta slóðin fyrir siglinguna.

o        Þegar siglt hafði verið austur og suður af Hyseholmen um kl. 09:00 á norskum tíma var ferð minnkuð í 4 hnúta og var þeirri ferð haldið þar til komið var austur af Grenholmen.  Þá var talið að erfiðasti hluti þeirra leiðar væri að baki og sett á 11 hnúta ferð.

o        Áður en komið var að skerinu Revlan sem er við enda siglingaleiðarinnar um Nappstraumen og fara þarf suður fyrir var stefnan sett á milli Storlevra og Lillelevra, í leið sem samkvæmt sjókorti átti að vera með dýpi á milli 15-40 m dýpi.  Ferðin var minnkuð í 6 hnúta og samkv. siglingaáætlun var valið að hafa grynnsta hluta þeirrar leiðar (ca 14 m) rétt um stjórnborða.  Eftir að hafa siglt framhjá þessu grunni var stefnan mitt á milli Eystan og Følfoten.

o        Siglingaleiðin sem skipstjórinn valdi var í rauðum geira (67°) á vitanum í Svinö.  Á vitanum voru hvítir geirar sitt hvorum megin við rauða geirann, annarsvegar 3° breiður norðan megin og 116° sunnan megin. (sjá mynd af sjókorti)  Samkvæmt upplýsingum frá norskum aðilum var þetta siglingasvæði ekki notað nema þá helst af minni bátum og mjög kunnugum heimamönnum;

o        Skipið strandaði um kl. 10:47 eftir um 1,3 sml. siglingu á þessari leið.

 

·         að samkvæmt ákvæðum í norskum reglum (forskrift §18) er erlendum skipum ekki heimilt að sigla á Nappstraumen svæðinu nema með lóðs.  Eina undantekningin frá þessu ákvæði er að viðkomandi skipstjóri fái skriflega heimild til þess frá yfirvöldum;

·         að samkvæmt framburði lóðsyfirvalda á svæðinu, “KYSTVERKET NORDLAND” (NORDLAND SJÖTRAFIKKAVDELING), kom fram að samband hafði verið haft við þá seinniparts dags 16. júní af fulltrúa skipsins og farið fram á leyfi til að sigla siglingaleið fyrir vestan LEKSNES.  Þar sem óskin fól í sér siglingu utan venjulegrar siglingaleiðar gat viðkomandi ekki gefið leyfi.  Til þess þurfti leyfi frá staðarlóðs sem væri kunnugur svæðinu auk leyfi yfirhafnsögumanns.  Viðkomandi var því beðin um að hafa samband aftur eftir kl. 22:00 um kvöldið til að hægt yrði að svara þessu en það var ekki gert.  Skipið hafði því ekki leyfi til að sigla inn Nappstraumen;

·         að það kom einnig fram að hefði fulltrúi skipsins haft samband eins og um var talað hafði sú ákvörðun verið tekin að leyfa skipinu ekki siglingu inn Nappstraumen heldur að sigla Moskenesstraumen;

·         að samkvæmt upplýsingum frá “Kystverked Nordland” og “Kystvaktskvadron Nord” ásamt kunnugum og reyndum aðilum á þessu svæði sigla stærri skip og bátar ekki þá leið sem skipstjóri Guðrúnar Gísladóttur valdi sér eftir að hann var kominn í gegnum Nappstraumen.  Þó töldu menn að minni fiskibátar með kunnugum stjórnendum væru að sigla þarna;

·         að auk skipstjóra var yfirst./1. stýrimaður á stjórnpalli á siglingunni en hann hafði farið niður til að gefa 2. stýrimanni fyrirmæli þegar skipið strandaði;

·         að vakthafandi vélstjóri hafði samband við brúnna eftir strandið frá frystivélarúminu og tilkynnti um mikinn leka í “Astik” rýmið og sá einnig leka inn í frystvélarýmið í þann mund sem hann yfirgaf rýmið;

·         að þremur klst. eftir strandið var fjara.  Um 1,5 m munur var á flóð og fjöru þennan dag;

·         að lestun skipsins var um 300 tn olía og 870 tn fryst síldarflök.  Samtals var særými skipsins um 4000 tn;

·         að grunnið (ca 6 m) sem skipið lenti á var ekki sjókorti (nr. 72), sem hafði verið keypt fyrir ferðina.  Þetta fékk skipstjórinn staðfest um borð í varðskipinu sem tók skipbrotsmennina um borð.  Fram hefur komið að einstaka fiskisjómenn á svæðinu vissu af þessu grunni;

·         að skipstjórinn hafði farið áður til Leksnes og var vanur siglingu í Norska skerjagarðinum, án leiðsagnar.  Hann hafði þó ekki farið um Nappstaumen áður;

·         að björgunarbúnaður um borð virkaði sem skyldi;

·         að um kl. 21:30 um kvöldið þegar skipið var orðið kjölrétt fóru skipstjórinn og vélstjórinn um borð og skoðuðu skipið og gengu um nær allt skipið.  Þeir sáu þá sjó í frystivélarými en komust ekki til að skoða í astikrými og vacumdælurými sökum ammoniaksmengunar.  Hurðin á astikrýminu lá yfir í frystivélarýmið og vacumrýmið var fyrir ofan frystivélarýmið.  Þá var sjór í síðu kælitönkum, stjór og bak, eftir áhöfnina þar sem verið var að hreinsa þá á siglingunni.  Ekki var neinn sjó að sjá í frystilestum;

·         að venjuleg hurð var á astikrýminu og ekki vatnsþétt;  

·         að opin lúga var stjórnborðsmegin frammi í skipinu sem var upp á milli rýma (mannop).  Einnig var stigi í skipinu miðskipa sem var með op á milli þessa rýma;

·         að kafað var við skipið eftir strandið.  Kafarinn sem fór niður kannaði skemmdir og sagði þær óverulegar en væru á astikrými;

·         að olíutankar voru sitt hvoru megin við astikrýmið en þegar skipið var orðið rétt og búið að toga mikið í skipið varð vart við olíuleka;

·         að þegar skipið var rétt fóru skipstjórinn og vélstjórinn auk manna frá Sjovejen og Tromsö að dæla með dælum frá skipum á vettvangi og dælum úr landi úr kælilestunum.  Það var gert þannig að settur var barki niður um mannop og búið að dæla langleiðina úr stjórnborðslestunum og var c.a. 1/4 eftir í þeim.  Þegar verið var að dæla úr bakborðslestunum datt skipið yfir á stjórnborðshliðina en lítið var búið að dæla þaðan þegar þetta gerðist.  Á þessum tíma höfðu lúgurnar voru opnaðar á veðurþilfarinu og voru menn að gera sig klára til að setja á sig grímur til að fara að lúgunni frammí og loka henni þegar skipið datt;

·         að lítilsháttar sjór var í vélarúminu og vætlaði yfir neðstu plittin.  Sá sjór kom framan frá en hann kom þá leið eftir gangi og í gegnum óvatnshelda hurð og þaðan niður í stjórnklefa meðan skipið lá á hliðinni;

·         að skipstjórinn og vélstjórinn lokuðu öllum dyrum og lúgum, nema lúgu á dælurýminu sem þeir vissu að væri opinn og náðu ekki til.  Ætlunarverkið var einnig að fá rafmagnstengingu um borð frá öðru skipi og setja af stað dælur skipsins en þeir urðu frá að hverfa vegna mikillar Amoniaks loftmengunar;

·         að skipið sökk þrátt fyrir að fyrstu athuganir á skemmdum virtust sýna að tjón hafi ekki orðið svo mikið að hætta yrði á að skipið sykki;

  • að dráttarbátur hafði reynt að toga í skipið og hugsanlega eitthvað hreyft það.

NB. Í ágúst 2005 fékk RNS nýja staðsetningu á flakinu frá norskum aðilum: 68°02,553N og 13°29,438A.

 
 

 Nefndarálit
 

Nefndin telur orsök strandsins vera þá að skipstjóri tók ranga ákvörðun um val á siglingaleið.  Hann sigldi skipinu utan venjulegrar siglingaleiðar og í rauðum ljósgeira siglingavita á Svinö sem gaf til kynna að um væri að ræða varhugavert svæði. 

 

Nefndin hefur ekki rannsakað sérstaklega hvers vegna skipið sökk svo skyndilega meðan á björgunaraðgerðum stóð en að öllum líkindum hefði skipið ekki átt að sökkva hefði verið rétt staðið að málum. 
 

Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [44.201.95.84] mánudagur 26. september 2022 14:24 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis