Þann 8. mars 2001 var M.s. Tunu GR 18-19 á nótaveiðum út af Krísuvíkurbergi. Veður: ASA 9,4 m/sek.
Í fyrsta kasti eftir að komið var á miðin virtist nokkuð í nótinni. Miklir netpokar, með loðnu í, fóru að myndast við blýteininn og hætta varð á að þeir drægjust upp í blökkina. Þrír skipverjar reyndu að draga riðilinn og koma þessum netpokum út fyrir blýteininn og slakanum á honum í blökkina til að koma í veg fyrir að loðna lokaðist inni í þeim og sprengdi þá. Bilið á milli skipverjanna við þessa vinnu var um það bil einn og hálfur metri. Búið var að draga um helming nótarinnar þegar einn skipverjinn, sem var með aðra hendina undir riðlinum, festi vinnuvettling í blökkinni. Hann reyndi að kippa að sér hendinni en hún var þá föst í vettlingnum og hendin dróst inn í blökkina.
Hann kallaði á félaga sína um að stöðva blökkina, en sá engin viðbrögð hjá þeim. Hann öskraði þá af öllum kröftum og hann fann að handleggurinn byrjaði að brotna inn í blökkinni. Þá urðu félagar hans varir við hvað var að gerast og stukku af stað í rofa sem var um tvo til þrjá metra frá þeim til að stoppa hífinguna.
Skipstjóri var í hliðarglugga í brú að venju og fylgdist með vinnu á þilfari en hafði brugðið sér úr glugganum, u.þ.b. tvo metra, að stjórntækjum snurpuspils til að hífa í snurpuvírinn. Hann var við það verk þegar hann heyrði öskur og áttaði sig strax á hvað var að gerast. Skipstjóri sló út öllu spilkerfinu með neyðarrofa í brú.
Skipverjinn var þá kominn með höndina upp að öxl inn í blökkina og hékk við hana í lausu lofti þegar hún stöðvaðist. Gengu skipverjar úr skugga um að stjórntæki blakkar væru í stöðvunarstöðu áður en spilkerfin voru endurræst til að ná hinum slasaða úr blökkinni.
Eftir slysið var kastinu sleppt niður, nótin dregin inn og siglt með hinn slasaða til Grindavíkur. Hann þurfti að gangast undir aðgerð á handlegg og öxl. |