Hinn 24. apríl 2001 var m.b. Kló á siglingu inn til Grundarfjarðarhafnar. Veður: S-átt og vindbára svo að hvítnaði í báru.
Skipstjóri sigldi bátnum á 16 hnúta hraða inn Grundarfjörð en minnkaði hraðann í um 7 hnúta ferð þegar hann átti um 3-4 skipslengdir í Norðurgarð hafnarinnar.Var sólin á móti sigldri stefnu og glampaði á vitann á hafnargarðinum.Þegar báturinn kom að enda hafnargarðsins strandaði hann. Skipstjóri hafði samband við hafnarvörð og gerði grein fyrir ferðum sínum og hvernig staðan væri.
Skipstjórinn hafði stundað róðra frá Grundarfirði árið áður og kom síðast þangað í júlí 2000.Hann hafði ekki heyrt tilkynningar um hafnarframkvæmdir í Grundarfirði en þar stóð yfir um 100m lenging á Norðurgarðinum.Bauja hafði verið sett út við endann á uppfyllingunni til leiðbeiningar fyrir sjófarendur og lá leiðin inn í höfnina fyrir austan hana.
Einhverjar skemmdir urðu á bátnum við strandið.
Við rannsókn kom fram
að skipstjóri sagðist ekki hafa séð baujuna fyrr en honum var bent á hana eftir strandið;
að tilkynning um framkvæmdir við höfnina voru tilkynntar á NAVTEX 7. mars 2001;
að ekki var tilkynnt um framkvæmdir í útvarpi eða gegnum strandstöðvar;
að samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun Íslands er hún nánast hætt að tilkynna um slíkar framkvæmdir nema á NAVTEX.Einu tilkynningarnar sem birtar eru í útvarpi eru varðandi hættuástand s.s. reköld, biluð leiðarmerki eða annað er getur valdið skyndilegu hættuástandi fyrir sjófarendur;
að báturinn var ekki búinn NAVTEX fjarskiptabúnaði, enda þess ekki krafist;
að skipstjóri tilkynnti ekki komu sína til hafnarinnar.
Nefndarálit
Nefndin telur að ekki hafi verið sýnd nægjanleg aðgát við siglingu bátsins.
Tillögur í öryggisátt
Nefndin leggur til að Siglingastofnun Íslands taki upp að nýju að tilkynna framkvæmdir í höfnum og á siglingaleiðum í útvarpi, þar sem stór hluti minni báta er ekki búinn NAVTEX búnaði.
Nefndin beinir þeir tilmælum til skipstjórnarmanna að hafa ávallt samband við hafnarverði þegar komið er til hafnar.