Í janúar 1998 var m.b. Bylgjan VE-75 á siglingu. Vakthafandi vélstjóri þurfti að fara á stjórnpall til viðræðna við vakthafandi skipstjórnarmann um að minnka álag á aðalvél vegna þess að afgashiti væri of hár. Þegar vélstjóri var á leiðinni upp stigann að stjórnpalli fann hann að gluggi var opinn á stjórnpallinum og talsverður dragsúgur. Er hann kom upp sá hann að bleyta var á kortaborði og stiga en skipstjórnarmaður var að loka glugganum. Vélstjóri gerði skipstjórnarmanni grein fyrir því að minnka þyrfti afl á aðalvél vegna þess að hiti á afgasi var of hár og var afl vélarinnar minnkað. Vélstjórinn hugðist þá fara niður stigann af stjórnpalli þegar brotsjór reið á stefni skipsins stb.-megin er leiddi til þess að hann missti hand- og fótfestu í stiganum og kastaðist aftur eftir og féll niður á þilfarið fyrir neðan. Tók það vélstjórann nokkra stund að jafna sig eftir fallið svo að hann kæmist af eigin rammleik aftur í borðsal til frekari hvíldar. Vakthafandi skipstjórnarmaður kom á stigaskörina til að huga að því hvað hefði gerst þegar skipverjinn féll en þeir voru aðeins tveir vakandi í skipinu á þessum tíma.
Við rannsókn kom fram
að ekki var bókað í dagbók skipsins um atvikið og vakthafandi stýrimaður sagðist ekki hafa haft hugmynd um að eitthvað hafi gerst fyrr en eftir að skýrslur voru gefnar hjá lögreglu í febrúar 2000 þegar talinn slasaður hafði samband við hann út af atvikinu;
að hinn slasaði sagðist hafa ítrekað áréttað við skipstjórnarmann um að bóka um atvikið í dagbók skipsins;
að lögregluskýrslur vegna þessa atviks voru fyrst gerðar í febrúar 2000;
að ekki hefur verið tilkynnt til Tryggingastofnunar ríkisins um atvikið í jan. 2001.
Nefndarálit
Nefndin telur að koma megi í veg fyrir slys af þessum toga ef menn snúa sér að stiganum í stað þess að ætla sér að fara niður og snúa baki að þrepum.
Tillögur í öryggisátt
Nefndin telur það varhugavert að fara um stiga í skipi með því að snúa baki í þrepin. Þarf þá að taka tillit til hvíluflatar fótar á stigaþrepi og öryggi handfestu á handriði. Öryggi handfestar á handriði þegar baki er snúið í þrepin og fara á niður stigann er stórlega skert miðað við að snúa að stiganum.
Nefndin vill benda skipstjórnarmönnum á ábyrgð þeirra á að skrá í dagbók skipsins samkvæmt gildandi lögum og reglum um færslu skipsbóka. Skrá skal atvik er verða og geta haft þýðingu fyrir ferð skips og öryggi þess eða manna sem á því eru. Vill nefndin vekja sérstaka athygli á skyldu skipstjórnarmanna að skila skýrslu til Tryggingastofnunar ríkisins um öll atvik er geta orðið bótaskyld, þ.e. öll slys eða atvik er verða og geta leitt til bótaskyldu.