Hinn 14. apríl 2000 fór m.b. Skel ÍS-33 frá Þórshöfn og var á siglingu fyrir Langanes á leið á miðin á Bakkaflóa. Veður: austnorðaustan 7-8 vindstig.
Skyndilega hætti skipið að láta að stjórn þegar það var komið suður fyrir Langanes og var á siglingu á suðvestlægri stefnu vestur með landinu. Fljótleg skoðun leiddi í ljós að eitthvað hefði komið fyrir stýrisstammann eða stýrisblaðið er orsakaði það að skipið lét ekki að stjórn.
Fengin var aðstoð bv. Björgvins EA-311 til að draga skipið til Seyðisfjarðar. Gekk það áfallalítið en dráttartaug slitnaði einu sinni.
Eftir að komið var til Seyðisfjarðar var fenginn kafari til að kafa og skoða hvað væri að. Kom þá í ljós að stýrisblaðið var horfið, hællegan hafði brotnað af og haft var eftir kafaranum að það hafi gerst vegna lélegrar suðuvinnu.
Skipstjóri skýrði einnig frá atviki er varð um borð í skipinu daginn áður eða 13. apríl 2000. Þá hafði skipið orðið vélarvana vegna óvenjulegs frágangs á olíukerfi skipsins. Um var að ræða systrasíur við vélina sem höfðu verið stilltar þannig að opið var inn á þær báðar samtímis. Þegar þær stífluðust stöðvaðist vélin.
Í skipinu var ekki daggeymir fyrir neysluolíu eins og lög og reglur gera ráð fyrir, þar af leiðandi tók það umtalsverðan tíma að koma eldsneyti inn á vélina aftur svo að gangsetja mæti hana á ný. Um síðir tókst að koma vél skipsins í gang aftur og sigla því áfram.