Þann 3. september 2008 var Happadís GK 16 á siglingu á miðjum Mjóafirði. Veður:N 9-13 m/s, myrkur.
Á siglingunni var bátnum siglt á fiskeldiskví með þeim afleiðingum að hann lenti inn í henni. Eftir lauslega skoðun á bátnum ákvað skipstjórinn að sigla út úr henni aftur og þurfti að beita miklu vélarafli til þess.
Skemmdir urðu á stefni og bóg bátsins en leki kom ekki að honum.Á kvínni bognuðu handrið og uppistöður brotnuðu á kafla.
Við rannsókn kom fram
að kvíin er gerð úr 96 mm sverum rörum og liggja þau þrjú saman og mynda hring sem er 35 metra að þvermáli. Ekki er fiskipoki neðan í rörunum. Engar merkingar voru við kvína annað en radarspegill meðljósabúnaði en engu ljósi. Þessi búnaður hafi lagst í sjó við áreksturinn að sögn eiganda;
að skipstjóri sagðist ekki hafa séð radarspegil eða ummerki um hann á kvínni og hafi hann tekið myndir sem rökstyðji það;
að skipstjóri sagðist margsinnis hafa lagt fiskilínu þarna í firðinum og hann hafi verið búinn að merkja í siglingatölvu staðsetningu allra annarra kvía sem lagt hafi verið á firðinum. Engin þeirra er merkt með ljósmerkjum en á hverri þeirra var radarspegill og þær afmarkaðar með fjórum belgjum og gulum kúlum.Hann taldi að umrædd kví hefði nýverið verið lagt þarna og staðfesti eigandi það;
að í Mjóafirði eru fisieldiskvíar merktar inn í sjókorti nr. 73 gefið út 2007, og samkvæmt upplýsingum eiganda kvíarinnar var henni lagt í legufæri frá kví sem þarna var og merkt er í sjókortið;
að sjókort nr. 73 var um borð en fram kom að það var ekki notað heldur einungis siglingatölva;
að radar var ekki í gangi en skipstjóri taldi sig ekki þurfa hann þar sem ekki var dimmviðri og aðeins náttmyrkur;
að engin kví var merkt samkvæmt reglugerð 238/2003 eða ákvæðum Alþjóða vitastofnunarinnar IALA í kerfi A sérmerkingar;
að samkvæmt 27. grein reglugerðar um eldi nytjastofna sjávar. nr. 238/ 2003 er krafist dag- og næturmerkja í samræmi við „sérmerkingar Alþjóða vitastofnunarinnar (IALA)“ en í þessari grein reglugerðarinnar er einnig sagt að; „Ljóseinkenni: Gult leifturljós á 3-5 sekúndna millibili“.
Nefndarálit
Orsakir atviksins voru þær að fiskeldiskvíin var ekki merkt í samræmi við reglur og aðgæsluleysi stjórnanda bátsins við siglingu skipsins um merkt hættusvæði.
Tillögur í öryggisátt
Að gefnu tilefni leggur nefndin til að Siglingastofnun Íslands hlutist til um sérstaka athugun á aðvörunarmerkingum fiskeldiskvía og þær verði undantekningalaust í samræmi við alþjóðareglur.