Þann 16. desember 2009 var Börkur frændi NS 55 á siglingu NA af Skrúð. Veður: NV 10 m/sek. (Veðurstöð á Vattarnesi) norður fall og nálægt fjöruliggjanda.
Börkur frændi NS fór frá Vopnafirði um kl. 21:00 þann 15. desember áleiðis til Reykjavíkur. Kl. 07:29 morguninn eftir þegar báturinn var staddur samkvæmt STK ferilvöktunarkerfi á stað, 64°55‘080N og 013°33‘819V kom síðasta sending frá honum og er skráð réttvísandi stefna hans 189.8° og sigldur hraði 7,1 hnútar. Miðað við þessa staðsetningu átti Börkur frændi NS þá eftir 0,236 sjómílu í Brökur sem er rúmlega eina sjómílu NA af Skrúð.

Kortið sýnir Brökur og staðsetningu bátsins kl. 07:29 frá STK kerfi ásamt stefnu hans.
Samkvæmt þessum leiðarreikningi hefur Börkur frændi NS siglt inn fyrir dýptarlínu Brökur um tveimur mínútum eftir síðustu STK merkjasendingu eða um kl. 07:31. Samkvæmt lýsingu skipverjans reis allt í einu upp mikið grunnbrot yfir bátinn með þeim afleiðingum að honum hvolfdi snögglega og fylltist af sjó.
Báðir bátsverjarnir voru í stýrishúsinu þegar atvikið átti sér stað og lokuðust þeir þar inni í loftrými þegar sjór flæddi þar inn. Á gólfi stýrishússins var lúga í vélarúm og hafði hún opnast þegar bátnum hvolfdi en annar bátsverjinn gat híft sig þar upp og aðstoðað hinn þangað upp. Þegar bátsverjarnir voru komnir upp í vélarýmið hækkaði sjávaryfirborðið þar og báturinn fór að halla. Öðrum þeirra tókst að kafa niður í stýrishúsið og komast í smá loftrými en hinn varð eftir. Sá sem komst í stýrishúsið fann glugga sem hann náði að komast út um og upp á síðu bátsins. Hann krafsaði niður um opinn gluggann og skömmu síðar flaut þar út björgunarbúningur sem hann komst í.
Eftir það voru skipverjarnir í sambandi sín á milli um tíma en þrátt fyrir hvatningu treysti bátsverjinn, sem var inn í bátnum, sér ekki til að reyna að komast út. Bátsverjinn sem komst út fór í gúmmíbjörgunarbát, skaut upp neyðarmerkjum og taldi sig hafa sett neyðarsendi í gang.
Um kl. 09:30 kom fiskibáturinn Beta VE að gúmmíbjörgunarbátnum skammt frá flaki Barkar frænda NS og bjargaði bátsverjanum. Skipulögð leit var gerð að bátsverjanum sem var saknað á svæðinu þrátt fyrir að hann væri talinn lokaður inn í bátnum. Börkur frændi NS fannst á stað, 64°54‘15N og 013°32‘76V eða 0,78 sml. SA af Brökum.

Þeir sem komu til bjargar reyndu að ná sambandi við skipverjann sem hafði orðið eftir inn í bátnum en án árangurs. Kafarar voru sendir á staðinn en ekki var talið ráðlegt að kafa inn í flakið til leitar sökum aðstæðna og Börkur frændi NS því dreginn til inn í Fáskrúðsfjörð á grynnra vatn. Þar fóru kafarar niður og sáu lík skipverjans inn í vélarúminu en ekki var unnt að ná því fyrr en báturinn var hífður á land.
Við fyrstu skoðun á bátnum voru ekki sjáanlegar ákomur á honum og ekki að sjá neinn leka en annar helmingur lestarlúgu á þilfari hafði farið af.

Björgunarferlið:
Kl. 07:29 Síðasta staðsetningaboð í STK kerfi frá Berki frænda NS (BF)
Kl. 07:38 Viðvörun fór af stað hjá Vaktstöð siglinga í ferilvöktunarkerfi STK um að staðsetningarboð höfðu ekki borist frá BF. Reynt var að endurræsa samband við landstöð sem gat tekið um 20 mín eða meira.
Kl. 08:00 Endurræsing bar ekki árangur og reynt að ná sambandi við BF á VHF neyðar- og uppkallsrás 16, tilkynningarás 9 og vinnurás skipa VHF 10. Einnig var reynt að hringja í símanúmer um borð í BF. Tveir bátar voru samkvæmt STK kerfinu á svæðinu og reynt var að ná sambandi við þá og kallað út til skipa. Haft var samband við hafnir á svæðinu.
Kl. 08:40 Samband náðist við Dögg SF 18 sem var staðsett SA af Skrúð. Bátsverjar kváðust hafa séð rauð ljós en töldu þau hafa verið í landi. Bent var á að Beta VE 36 sé nær landi.
Kl. 08:49 Samband var haft við Betu VE sem hafði einnig séð rauð ljós. Hún var beðin um að halda á staðinn og einnig Dögg SF.
Kl. 08:51 Útkall F1 Rauður.
Kl. 08:55 Útkall BRAVÓ á þyrlu. Nærstaddir bátar beðnir um að halda á svæðið og dráttarbáturinn Vöttur kallaður út.
Kl. 09:00 Svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi fékk allar upplýsingar.
Kl. 09:07 Björgunarsveitir fóru út á Vattarnes með slöngubáta til sjósetningar.
Kl. 09:10 Björgunarskipið Hafbjörg fór frá Neskaupsstað.
Kl. 09:25 Bátsverjar á Betu VE og björgunaraðilar á Vattarnesi sáu neyðarblys.
Kl. 09:31 Beta VE kom að björgunarbátnum frá Berki frænda NS á stað, 64°54‘34N og 013°31‘64V. Einum manni bjargað og eins var saknað.
Kl. 10:00 Þyrla beðin um að sækja kafara á Höfn.
Kl. 11:25 Kafarar komnir á staðinn með b/s Hafbjörgu. Ekki var talið ráðlegt að kafa undir bátinn.
Kl. 13:31 Dráttarbáturinn Vöttur byrjaði að draga flakið af Berki frænda NS til Fáskrúðsfjarðar. Týndi bátsverjinn var talinn vera í flakinu.
Kl. 16:17 Dráttarbáturinn Vöttur í mynni Fáskrúðsfjarðar. Staðfest að bátsverjinn sem saknað var væri látinn í vélarúmi bátsins.
Kl. 18:00 Komið með flakið til Fáskrúðsfjarðar og hafist handa við að hífa það á land.
Kl. 21:05 Flak Börks frænda NS komið á land.
|