RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
077/06  42025-23.10.06
011/06  44298-06.06.06
088/05  41233-27.03.06
094/05  40611-21.02.06
107/01  56994-01.12.05
065/05  38835-08.11.05
012/05  43695-31.08.05
043/04  49627-31.08.05
081/04  40256-12.02.05
105/03  45123-22.12.04
 5 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 046/12  - Örvar HU 2
  Örvar HU 2, efnaslys við þrif   
 Heimsóknir: 28949 Uppfært: 08.10.12 

  Örvar HU 2
Skipaskr.nr.: 2197
Smíðaður: Spáni 1993 stál
Stærð: 736,00 brl; 1.243,00 bt
Lengd: 52,20 m Breidd: 11,60 m Dýpt: 7,23 m
Vél: Wärtsilä 2.200,00 kW Árgerð: 1993
Annað: 
Fjöldi skipverja: 17 

Örvar©Hilmar Snorrason 
 

 Atvikalýsing
 
Þann 1. maí 2012 var Örvar HU 2 á togveiðum um 12 sml. austur af Kolbeinsey. Veður: SV 20-22 m/s
 
Skipverjar höfðu verið að vinna við þrif á milliþilfari en fljótlega eftir það fór einn þeirra að finna til verulegra óþæginda en hann fékk höfuðverk, magaverk og varð slappur. Hann hélt áfram vinnu við að taka trollið en fékk uppköst við það en fór síðan að vinna við hausara í vinnslurýminu. Þá fór hann fljótlega að kúgast meira, féll niður og kvaðst vera með sjóntruflanir og verulega slappur. Haft var samband við lækni og var ákveðið að senda þyrlu eftir manninum.
 
 

 Við rannsókn kom fram
 
  • að samkvæmt niðurstöðu læknis hafði skipverjinn orðið fyrir klórgaseitrun;
  • að skipverjinn hafði verið að vinna með hreinsiefni á milliþilfarinu sem heitir Cetamet 77. Að sögn hans hafði hann verið að láta renna um 70°-80°C heitt vatn á háþrýstikút sem tók u.þ.b. klst. og hann stóð við hann á meðan. Hann hefði í raun soðið efnið með þessu og eiturgufa náð að myndast. Hann hafði látið efnið liggja um tíma eftir blöndun og farið af vettvangi áður en hann úðaði því um rýmið. Hann hafði verið á vakt u.þ.b. tvær klst. þegar hann fór að finna til óþæginda;
  • Cetamet 77 hafði verið notað um borð í skipinu í rúm tvö ár og verið blandað 4% á móti köldu vatni en í þetta skiptið var kaldavatnslögnin biluð. Fram kom að um borð var einnig Cetamet 10 og blanda mátti þessum efnum saman en það var ekki gert í þetta skiptið;
  • að samkvæmt fulltrúa útgerðaraðila var kaldavatnslögnin ekki biluð en hún hafi verið of grönn til margra ára og flutt of lítið magn af vatni. Það hefði t.d. tekið u.þ.b. eina klst. að fylla háþrýstikútinn. Eftir atvikið var þetta lagað;
  • að fram kom að loftræstikerfið í vinnslurýminu hefði verið bilað um nokkurn tíma og menn kvartað undan óþægindum í augum vegna þess;
  • að samkvæmt fulltrúa útgerðaraðila var viðgerð á loftræstikerfinu í vinnslu og búið að panta nýjan blásara en hann hafði ekki verið til í landinu og það því tekið nokkrar vikur. Fram kom í athugasemdum að búið væri að setja hann við kerfið;

RNS sendi eftirfarandi spurningar til Efnagreiningardeildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands:

1.       Hvort hættuleg efnamyndun s.s. klórgas geti myndast ef efninu sé blandað í heitt vatn?

2.       Hvort blandað Cetamet 77 geti við þrif myndað klórgas ef það blandast klór sem gæti legið í rýminu eftir önnur þrif?

 

Eftirfarandi svar barst og telur RNS ástæðu til að setja það strax í fréttir:Merking á umbúðum

1.       Er varðar fyrri spurninguna þá samanstendur Cetamet 77 (sjá merkingu á umbúðum) af 5-15 % natríumhýpóklórít í 5-15 % vítissóta (natríumhýdroxíði) skv. upplýsingum með vörunni.  Samkvæmt sömu upplýsingum eru í blöndunni einnig 5 % anjónískir tensíðar og minna en 5 % af fosfónötum.  Hvorki anjónískir tensíðar né fosfónöt eru rokgjörn efni en um er að ræða kvoðumyndandi efni, efni með sápueiginleika  og efni sem binda málma (fosfónötin).  Natríumhýpóklórit er klórgas, sem leyst er í vítissóta.  Eins og á við um allar lofttegundir í upplausn þá losna þær úr lausninni við hitun.  (Klórgas getur einnig losnað úr þessari lausn ef hún kemst í snertingu við sýru).  Það er því líklegt að klórgas hafi losnað úr lausninni þegar 60-80 °C heitu vatni var blandað í hana.  Ekki er ólíklegt að við blöndun með heitu vatni hafi efnið kvoðast að hluta a.m.k. en við það losnar klórinn hraðar úr blöndunni við hitun.  Magn klórs sem þannig losnar er háð styrk natríumhýpóklóríts í upphaflegu blöndunni, hversu heitt vatnið var sem bætt var í Cetamet 77, hversu hratt vatni var blandað í hana, og hvort hrærsla (eða önnur kvoðumyndandi vinnsla) hafi átt sér stað meðan á blöndun átti sér stað.

2.       Við hreinsun með klór skal ávallt skola hreinsaða fleti með miklu (og oftast köldu) vatni á eftir en þannig skolast klórinn í burtu (sem og fram kemur í leiðbeiningum með Cetamet 77: skolun með þrýstihreinsun eftir að kvoða hefur setið í 10 mínútur).  Klór, sem ekki hefur verið skolaður í burtu, hverfur hins vegar smám saman með uppgufun og því hraðar sem hitastig á flötum og herbergi er hærra og því meiri sem loftræsting er. Ef góð hreinsun með vatni hafði átt sér stað eftir fyrri þrif, þá er ekki ástæða til að ætla að klórgas hafi myndast.  Þó svo hreinsun með vatni hafi ekki átt sér stað eftir fyrri þrif, þá er ekki ástæða til að ætla að seinni hreinsun með Cetamet 77 (í köldu vatni) hafi leitt til það mikillar aukningar á klórgasi að það hafi valdið miklum óþægindum fyrir þá sem unnu að þrifunum.  Í þessu seinna tilviki hefðu menn, sem vistuðust í rýminu eftir fyrri þrif, líklegast orðið þess varir að skolun á klórlausninni hefði ekki farið fram eftir þrifin (bæði vegna lyktar og vegna þess að kvoðan sat á hreinsuðum flötum).

  • að skipverjar notuðu ekki neinn sérstakan hlífðarbúnað við notkun á efninu og voru klæddir venjulegum sjófatnaði við þrifin. Ekki voru reglur um sérstaka hlífðarvettlinga eða hlífðargleraugu/andlitsgrímu eins og lagt er til á leiðbeiningum á umbúðum;
  • ekki koma fram á leiðbeiningum á umbúðum t.d. eftirfarandi atriði:
a)      Upplýsingar um rétta meðferð við blöndun efnisins nema að því leyti að það skuli vera í um 4% styrkleika.
b)      Mikilvægi góðrar loftræstingar.
c)      Að það geti myndað klórgas og við hvaða aðstæður.
d)      Geymsla.
e)      Tegund hlífðarbúnaðar.
f)        Að efnið er skráð hjá Eitrunarmiðstöð.
 
  • að í samtali við slasaða tæpum tveim mánuðum eftir atvikið kom fram að hann þjáðist enn m.a. af miklum sjóntruflunum (jafnvel hætta á blindu á öðru auga), þrek- og jafnvægisleysi auk veikinda í lungu og maga. Hann sagði eftir lækni að mögulega hefði litli heili orðið fyrir áfalli og truflaði taugaboð.

 
 

 Nefndarálit
 
Nefndin telur orsök slyssins vera röng meðhöndlun á hættulegu efni og léleg loftræsting.  Þá telur nefndin einnig að merkingum efnisins hafi verið ábótavant.
 
Nefndin telur ámælisvert að kaldavatns- og loftræstikerfi á vinnsluþilfari hafi ekki verið sem skyldi þrátt fyrir mikilvægi þeirra við þrifin.  Ekki hafði verið gert við loftræstikerfið þrátt fyrir kvartanir skipverja.
 
 
Sérstök ábending:
 
Nefndin hvetur skipstjórnendur að kynna sér vel og sjá til þess að skipverjar þekki umgengni um varhugaverð efni sem notuð eru um borð í skipum og fara í einu og öllu eftir öryggisleiðbeiningum um þau.
 
 

 Tillögur í öryggisátt
 
Nefndin telur merkingu á umbúðum Cetamet 77 ófullnægjandi og leggur til eftirfarandi tillögu í öryggisátt:
 
Að Siglingastofnum Íslands hlutist til um að viðeigandi stofnanir sjái til þess að fullnægjandi merkingar verði á umbúðum Cetamet 77 um meðhöndlun efnsins t.d. rétta blöndun, loftræstingu, geymslu og aðra meðferð.
 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [44.201.95.84] mánudagur 26. september 2022 15:18 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis