RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
077/06  42845-23.10.06
011/06  45157-06.06.06
088/05  42045-27.03.06
094/05  41498-21.02.06
107/01*  57883-01.12.05
065/05  39658-08.11.05
012/05  44587-31.08.05
043/04  50370-31.08.05
081/04  41016-12.02.05
105/03  46049-22.12.04
 5 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 107/01  - Svanborg SH 404
  Svanborg SH 404, verður vélarvana og ferst við Svörtuloft þrír menn farast, einn bjargast   
 Heimsóknir: 57884 Uppfært: 01.12.05 

  Svanborg SH 404
Skipaskr.nr.: 2344
Smíðaður: Hafnarfirði 1999 Stál
Stærð: 29,93 brl; 42,00 bt
Lengd: 15,65 m Breidd: 4,99 m Dýpt: 2,26 m
Vél: Caterpillar 340 E 336,00 kW Árgerð: 1999
Annað: 
Fjöldi skipverja: 4 

 
 

 Atvikalýsing
 

Svanborg SH fór á sjó milli kl. 08:30 – 09:00 að morgni 7. desember 2001. Milli kl. 17:00 og 18:00 þegar skipið var statt grunnt vestur af Snæfellsnesi, á Sandabrún, fór veður að versna og varð slæmt á skömmum tíma.

Um svipað leyti slitnaði stertur og lagt var af stað norður fyrir Öndverðarnes með voðina úti og með á að giska 12 tonn af fiski í. Vegna veðurs lét skipstjóri skera pokann frá og skipverji sem var í lest kom upp á þilfar. Var lestarlúgu lokað og hún skálkuð aftur. Afgangur voðarinnar var tekin af tromlu og komið fyrir til bakborða á móti veðri.

Samkvæmt lýsingum skipverja sem komst af var sjór fljótur að rífa sig upp en vestlæg alda hafði verið fyrr um daginn. Brot hafi riðið yfir bátinn og hann hallast í a.m.k. 10-15° en þeir þrír skipverjar sem voru á þilfari köstuðust þó ekki til. Í sama mund upplýsti skipstjóri að aðalvél hefði stöðvast og fór hann sjálfur niður í vélarrúm til að freista þess að gangsetja hana. Skipstjóri virtist koma aðalvélinni í gang en þó aðeins í u.þ.b. 1-2 mínútur en svo ekki meir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ljósavél var í gangi allan tímann meðan á þessu stóð en hún drap á sér en fljótlega tókst að koma henni í gang aftur.

Var þá ákveðið að setja út akkeri. Greiðlega tókst að koma út stjórnborðs akkeri og hélt það um tíma, en bakborðs akkeri stóð á sér og þurfti barefli til að koma því út. Bakborðs akkeri náði ekki festu til að byrja með en slitnaði skömmu eftir að það náði festu. Ekki er vitað hversu mikið var gefið út af vír en þegar akkeri gáfu sig var skipið í um 20-30 metra frá landi.

Svanborgu rak upp í klettana um kl. 18:17 við Svörtuloft á stað 64°50’54N og 24°01’47V og skorðaðist þar í fyrstu. Komust þrír skipverjar upp á stýrishús en einn hafði tekið útbyrðis skömmu áður. Þegar báturinn hafði skorðast fóru tveir skipverjar niður á þilfar og freistuðu þess að ná taki á klettinum sem skipið hafði skorðast undir en án árangurs. Mikið ólag varð til þess að þeim skolaði fyrir borð en skipverjanum sem eftir var á stýrishúsinu náðist að bjarga með þyrlu varnarliðsins við erfiðar aðstæður.

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að skv. veðurathugunum frá Gufuskálum og Fróðarheiði breyttist veðrið úr austan 4 m/sek í vestan 41 m/sek á um það bil 30 mínútum;
 • að strax um morguninn voru stormviðvaranir frá Veðurstofu Íslands sendar út og ítrekaðar í veðurfregnum;
 • að samkvæmt vitnisburði þess sem af komst voru skipverjar meðvitaðir um slæma veðurspá;
 • að ekki kom fram í samskiptum skipverja á Svanborgu SH og Steinunnar SH hvað hefði valdið því að aðalvél gekk ekki;
 • að akkerin voru með 16mm (krafa er 13mm) keðjum fyrst í krókin, ca. 8m og síðan er 16mm vír sem tekur við inn á tromlu;
 • að illa heyrðist í neyðarhandstöð sem skipstjóri tók úr brú;
 • að skipverjar áttu í erfiðleikum með að ná björgunarbúningum úr plastinu sem þeir eru í og þurftu þeir að beita tönnum til að rjúfa plastið;
 • að aðalvél var af svokallaðri B gerð Caterpillar 3406E og með rafeindarstýrðan gangráð;
 • að loftinntakskassi fyrir vélarrúm var stækkaður í júní 2001 um 50cm og inntakinu snúið aftur vegna hávaða og vandræða með að vökvi átti greiða leið í vélarrúm;
 • að loftinntak var með 6000m3 blásara og 80cm hæð miðað við borðstokk;
 • að samskonar bátar hafa átt í vandræðum með loftinntak og höfðu verið gerðar breytingar á einhverjum þeirra með því að setja síuinntak;
 • að samkvæmt upplýsingum frá Ósey hf sem gekk frá loftræstibúnaði í skipinu var "stútur/loftkanall frá blásara og niður í vélarrúm. Hann endaði í vélarúmslofti";
 • að allur stjórnbúnaður vélar var í brú og gangsetning hennar í vélarrúmi;
 • að ekkert mælaborð var í vélarrúmi heldur eingöngu gaumljós sem sýndu takmarkað um gang aðalvélar eða bilanir;
 • að ef rafeindarstýrður gangráður missir rafmagn er ekki hægt að gangsetja aðalvélina;
 • að aðalvélar af þessari gerð þola mikinn halla þannig að ólag sem veldur 10-15° halla hefur ekki áhrif á gang hennar;
 • að í október eða nóvember 2001 drapst einu sinni á aðalvél en þá hafði gleymst að dæla á milli tanka;
 • að skipt var um síur við hverja olíutöku;
 • að samkv. teikningum á eldsneytisolíukerfi fer lekaolía af aðalvél í gegnum val-loka sem einnig þarf að skipta um þegar skipt er á milli síðutanka;
 • að aðalvélin þurfti 396 l/klst af brennsluolíu til brennslu og kælingar;
 • að aðalvél brennir um 80 l/klst á klst. undir fullu álagi;
 • að Racor-síurnar bera 454 l/klst báðar saman, en eingöngu er keyrt á annarri.
 
 

 Nefndarálit
 

Nefndin telur orsök slyssins vera þá að aðalvél skipsins stöðvaðist en ekki er ljóst hvers vegna.

Nefndin bendir þó á að vandamál hafa komið upp í systurskipum með samskonar loftblæstri til vélarúms vegna raka og saltmengunar. Einnig skal tekið fram að vandræði hafa komið upp með hliðstæð eldsneytiskerfi sem felst í of grönnum lögnum og of litlum olíusíum.

Nefndin telur að veðurspá dagsins hefði átt að gefa tilefni til þess að vera ekki á sjó á þessu svæði.

Björgunarþáttur sjóslyss: Skýrsla RNS vegna máls nr. 107/01

Í júlí 2002 fór samgönguráðuneytið þess á leit við RNS að björgunarþáttur sjóslyssins þegar Svanborg SH 404 fórst við Svörtuloft 7. desember 2001 yrði rannsakaður sérstaklega. Skýrslu RNS var skilað til ráðuneytisins í mars 2003. Samgönguráðuneytið hefur óskað þess að RNS birti hana á vefsíðu sinni og er hægt að nálgast hana hér á PDF formi.

Skýrsla RNS

 
 

 Tillögur í öryggisátt
 
 1. Nefndin leggur til að hugað verði að staðsetningu loftinntaka á skipum og minnir á að til eru loftsíur með gildrur fyrir vökva.
 2. Nefndin ítrekar þær ályktanir sem gerðar hafa verið um að útgerðar- og/eða skipstjórnarmenn fari eftir þeim viðvörunum sem koma í veðurspám.
 3. Nefndin bendir á að við rannsókn þessa máls og hliðstæðra mála hefur komið í ljós að í mörgum tilfellum eru skip með of litlar eldsneytissíur miðað við olíuflæði að vélum.
 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [3.238.118.80] sunnudagur 04. desember 2022 09:37 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis