RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
077/06  42025-23.10.06
011/06  44298-06.06.06
088/05  41233-27.03.06
094/05  40609-21.02.06
107/01  56993-01.12.05
065/05  38834-08.11.05
012/05  43695-31.08.05
043/04  49626-31.08.05
081/04  40256-12.02.05
105/03  45122-22.12.04
 5 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 046/02  - Steinunn SF 10
  Steinunn SF 10, skipverji slasast við netalögn   
 Heimsóknir: 47351 Uppfært: 23.09.04 

  Steinunn SF 10
Skipaskr.nr.: 1416
Smíðaður: Mandal Noregi 1975 stál
Stærð: 347,00 brl; 475,00 bt
Lengd: 43,57 m Breidd: 8,20 m Dýpt: 6,50 m
Vél: Wichmann 920,00 kW Árgerð: 1975
Annað: 
Fjöldi skipverja: 11 

 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 29. apríl 2002 var Steinunn SF 10 á netaveiðum á svokallaðri Klöpp sem er 9 sml. austur af Ingólfshöfða.  Veður:  NNV 14-17 m/sek, talsverður sjór eða kröpp vindbára.

 

Lokið var við að draga sjö trossur við Ingólfshöfða og byrjað að leggja þær austur á Klöpp.  Tveir skipverjar voru á milliþilfari við drekalúguna bakborðsmegin þar sem færi og drekar voru í þremur körum, en trossurnar voru staðsettar í netakassa aftur á skut.  Seinni drekinn var farinn og seinna færið farið að renna út og var u.þ.b. tveir þriðju hlutar (60 faðmar) þess komið út.  Flækja kom á færið sem kom upp úr karinu og flæktist það við færið á næstu trossu sem einnig byrjaði að dragast út.  Bauja og svokallaður “hundur” á baujubandinu, sem tengdust næstu trossu, fóru af stað og slógust utan í annan skipverjann. 

 

Til að koma í veg fyrir að falla ofan á flækt færið, sem var að renna út, tók skipverjinn ósjálfrátt skref fram og steig þá með vinstri fótinn ofan í lykkju sem hafði myndast á seinna færinu og hertist að.  Við það sviptist hann upp af þilfarinu og í átt að lúgunni.  Öskruðu báðir skipverjarnir til skipstjórans að bakka, sem hann gerði en þá hafði hann orðið þess var að færin voru flækt.  Eftir að skipstjórinn fór að bakka náði skipverjinn að setja vinstri fótinn inn fyrir lúgukarminn og skorða sig og forða því að dragast út.  Hinn skipverjinn reyndi fyrst að hjálpa hinum slasaða með höndunum en þegar það gekk ekki náði hann í hníf og gat með snarræði skorið á færið.  Þegar því lauk hafði skipverjinn að mestu leiti dregist út um lúgugatið, hékk aðeins á annarri hendi og fætinum í karminum.

 

Eftir að skipverjanum hafði verið hjálpað inn var hann lagður á netaborðið og þaðan inn í stakkageymslu.  Strax var kallað eftir þyrlu með lækni og siglt á móti henni.  Við athugun kom í ljós að skipverjinn var mikið slasaður og fóturinn nánast af.  Hinn slasaði var kominn í þyrlu rúmum tveimur klukkustundum eftir slysið.  Ekki var hægt að bjarga fæti hans. 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að verið var að leggja á 6,5 hnúta ferð með vindinn á stb. bóginn;
 • að skipstjóri var með myndavél og hátalarakerfi í brú og sá hvað fram fór;
 • að netalúgan er framarlega á milliþilfarinu, þar inn af er netaspilið og fyrir innan það er netaborðið (ca. 4m) sem liggur skáhalt inn á mitt þilfarið.  Fyrir endanum á borðinu að aftan voru átta fiskikör, tvö tóm og sex með nýjum netum.  Bakborðsmeginn við netakörin voru þrjú 1000 ltr. kör sem var raðað langsum eftir skipinu.  Í tveimur voru færin geymd en drekarnir í einu og var það gegnt lagningarlúgunni.  Fyrir framan drekakarið voru baujur, belgir og hundar geymdir;
 • að sögn slasaða var nokkuð þröngt á milliþilfarinu því fyrir vertíðina var búið að færa færin og drekana þangað niður af afturskipinu.  Netin sjálf voru í búri á afturskipi;
 • að sögn skipstjóra hafði vinnuplássið ekki minnkað.   Sjö trossur höfðu áður verið staðsettar á milliþilfarinu en þeim hafði verið skipt upp á dekk afturá og baujunum, belgjunum og hundunum komið fyrir niðri til hægræðingar og til að auka öryggi;
 • að mati hins slasaða hefði meira pláss mátt vera fyrir baujurnar, belgina og hundana og auðvelt að gera breytingar til að bæta vinnuaðstöðuna á milliþilfarinu, sem einnig kæmi í veg fyrir slys af þessum toga.  Það gæti verið gert með því að færa fiskimóttöku og aðgerðaraðstöðu fram á fremra milliþilfar, sem er á að giska um 40m2 og var ónotað rými;
 • að eftir slysið er sett yfirbreiðsla úr nótagarni á milli færanna í körunum og að mati skipstjóra og slasaða er það mikið til bóta;
 • að ef skipverjinn hefði ekki náð með snarræði að skorða sig í lúguopinu hefði líklega farið ver;
 • að báturinn var með tólf trossur eða 180 net á vertíðinni;
 • að hinn slasaði hafði verið um þrjú ár á bátnum;
 • að sýnt er að skipverjinn sem var á þilfarinu ásamt slasaða sýndi mikið snarræði við að bjarga félaga sínum við þessar aðstæður.
 
 

 Nefndarálit
 

Nefndin telur orsök óhappsins vera þá að færið flækist vegna ófullnægjandi frágangs.

 

Nefndin telur rétt brugðist við með því að breyta verklagi og yfirbreiðsla hafi verið sett á milli færanna til að koma í veg fyrir að svona komi fyrir aftur.   
 

 Tillögur í öryggisátt
 
 1. Nefndin telur að þar sem tækifæri er til að auka og bæta vinnuaðstöðu um borð í skipum eigi að skoða þá möguleika alvarlega.  Með framkvæmd áhættumats sem skylt er að gera (sjá reglugerð nr. 786/98 um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum) munu skipverjar eiga auðveldara með að greina hættusvæði áður en slys verður.
 2. Nefndin leggur til að almennt verði sett yfirbreiðsla á milli færa á netaveiðum.
 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [44.201.95.84] mánudagur 26. september 2022 14:29 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis