RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
077/06  42845-23.10.06
011/06  45157-06.06.06
088/05  42045-27.03.06
094/05  41498-21.02.06
107/01  57883-01.12.05
065/05  39658-08.11.05
012/05  44586-31.08.05
043/04 50369-31.08.05
081/04  41016-12.02.05
105/03  46048-22.12.04
 5 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 043/04  - Baldvin Þorsteinsson EA 10
  Baldvin Þorsteinsson EA 10, fær nótina í skrúfuna og strandar   
 Heimsóknir: 50370 Uppfært: 31.08.05 

  Baldvin Þorsteinsson EA 10
Skipaskr.nr.: 2212
Smíðaður: Flekkefjord Noregi 1994 stál
Stærð: 1.512,00 brl; 2.968,00 bt
Lengd: 85,85 m Breidd: 14,00 m Dýpt: 8,60 m
Vél: MaK 3.700,00 kW Árgerð: 1993
Annað: 
Fjöldi skipverja: 16 

Baldvin Þorsteinsson©Þorgeir Baldursson 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 9. mars 2004 var Baldvin Þorsteinsson EA 10 á loðnuveiðum ásamt fleiri skipum fyrir utan Skarðsfjöru á Meðallandsbugt.  Veður: SA 11 m/s, þoka, 8°c og norðurfall.  Háflóð kl. 07:30.

Baldvin Þorsteinsson EA fór frá Seyðisfirði um kl. 08:30 um morguninn, hélt suður með Austfjörðum og kom á svæðið við Skarðsfjöruna um kl. 23:00 um kvöldið.  Voru þá nokkur skip á veiðum þar.Myndin sýnir strandstaðinn

Um kl. 03:00 voru skipverjar um það bil hálfnaðir að draga nótina, í síðasta kasti áður en halda átti til löndunar, þegar hún flæktist í skrúfu skipsins.  Um borð í skipinu voru um 1.800 tonn af loðnu.

Bjarni Ólafsson AK 70 var fenginn til að reyna að toga í Baldvin Þorsteinsson EA, fyrst með tvöföldu landfestartógi en það slitnaði eftir nokkrar mínútur.  Landfestartógið var frá Baldvini Þorsteinssyni EA.  Þá var komið snurpuvír á milli skipanna en við að reyna að toga gaf spilið sig um borð í Bjarna Ólafssyni AK.  Baldvin Þorsteinsson EA rak því stjórnlaust að landi.  Snurpuvírinn var frá Bjarna Ólafssyni AK.

Við þessar aðgerðir tók Bjarni Ólafsson AK niðri auk þess sem brot kom á skipið með þeim afleiðingum að einn skipverja slasaðist.  Hann kastaðist til á þilfarinu og lenti illa með þeim afleiðingum að hann bólgnaði á hendi.

Baldvin Þorsteinsson EA strandaði um kl. 05:05 á stað 63°33'N og 17°53,147V sem var um 0,3 sml frá landi og 3,3 sml NA af Skarðsfjöruvita.  Vel gekk að ná skipverjum frá skipinu með þyrlu LHG.

Baldvin Þorsteinsson EA 10 á strandstað

 

Tímasetningar og atvikaskráning:

03:12  Skipstjóri Baldvins Þorsteinssonar EA-10 tilkynnir að skipið hafi fengið  nótina í skrúfuna á stað 63°31.5N  017°53.2V sem var um 1,8 sml

frá landi. Veður: SSV 25 hnútar og 2m ölduhæð. Bjarni Ólafsson AK-70 reynir að koma línu yfir í Baldvin Þorsteinsson EA.

03:22  LHG í sambandi við Baldvin Þorsteinsson EA. Illa gekk að koma línu á milli skipanna.    Notast við hliðarskrúfu.

03:28  LHG - Útkall "BRAVO"

03:38  Varðskip upplýst um stöðu mála.

03:40  Stjórnstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli JRCC og Reykjavík Radíó TFA látið vita um stöðu mála

03:46  Baldvin Þorsteinsson EA – landfestartóg slitnaði, reynt að koma annarri taug fyrir.

03:47  Þyrla LHG TF-LIF ræst út.  Reynt var (kl. 04:02) að fá þyrlu frá JRCC með en hún gat ekki farið í loftið fyrr en kl. 06:30.

03:49  Samband við Baldvin Þorsteinsson EA  - Hliðarskrúfur halda engu. Gengur ekkert að ná línu úr Bjarna Ólafssyni AK.

04:15  Neyðarlínan upplýst og hún lætur lögregluembætti staðarins vita um ástandið.

                       TFA - Ræsir út björgunarsveitir.

04:20  Útkall rauður á svæði 16, Landsbjörgu.  Björgunarsveitirnar Víkverji og Kyndill.

04:26  TF-LIF flugtak.  ETA 06:00 á strandstað.

          - Baldvin Þorsteinsson EA búinn að taka niðri.

04:35  Baldvin Þorsteinsson EA  - Taug slitnar.

04:45  Fyrstu björgunarsveitarmennirnir fara frá Vík.

04:59  Baldvin Þorsteinsson EA er kominn inn fyrir ytri  brimgarðana.  Lætur akkeri falla.

05:13  Baldvin Þorsteinsson EA strandaður á stað 63°33.17N - 017°53.14V.  Brýtur ekki mikið á honum.

05:30  Þyrla JRCC fer í loftið.  ETA um kl 07:30

05:30  Björgunarsveit fer fá Klaustri.

05:35  Vestmanneyjaflugvöllur BIVM beðinn um að athuga eldsneyti fyrir þyrlur.

05:36  TÝR á leið á strandstað.   Siglir á 10 hnúta hraða, í miklum sjó.

05:41  Baldvin Þorsteinsson EA upplýstur um að þyrla komi um kl. 06:10.  Skipið með bæði akkeri úti, hálfflýtur, báðir hlerar úti.  Vindur 60° á borð.

05:44  Vestmanneyjaflugvöllur tilkynnir að ekkert þyrlueldsneyti sé til hjá þeim.

06:01  Fyrstu björgunarsveitir komnar á strandstað.  Þyrla LHG biður um lágmarks ljósanotkun í landi

06:04  Hugmyndir LHG um að létta skipið.  Skipverjar á Baldvin Þorsteinsson EA mæla ekki með því.

06:05  Þyrla LHG komin yfir strandstað – óskar eftir ákvörðun um mannaflutninga.

06:07  Ákveðið að áhöfnin verði hífð um borð í þyrlu LHG.

06:17  Þyrla LHG ítrekar minni ljósanotkun í fjörunni.

06:25  TF-LIF byrjuð að hífa skipbrotsmenn frá borði

06:30  Stjórnstöð á Klaustri mönnuð og allir björgunarsveitarmenn komnir í fjöru.

06:45  14 manns úr áhöfn komnir um borð í þyrlu LHG.

06:48  Allir skipverjar komnir um borð í TF-LIF.  Fer með þá í fjöruna.

06:50  Haft samband við RNS.

06:56  TF-LIF fer af stað til Víkur með 11 skipverja.  Skipstjóri  og fjórir aðrir skipverjar verða eftir á strandstað.

07:05  Vegna veðurs er ákveðið að fara með alla til Víkur en ekki á Kirkjubæjarklaustur.

07:06  Baldvin Þorsteinsson EA snýr með stefni út.

07:12  Landhelgisgæsla tilkynnir að varðskip verði á staðnum eftir 5-6 klst.  Segir að ekki verði þörf á mannskap í landi þegar farið verði að losa

          skipið.

07:20  TF-LIF lent á Vík með 11 skipbrotsmenn.

07:46  Skipstjóri og fjórir úr áhöfn yfirgefa strandstað, fara með bsv. til Víkur.

08:13  Flestir úr bsv. fara af vettvangi.  Fimm menn eftir á strandstað.

14:40  Eigendur skips fara á strandstað.  

 

Svæðisstjórn bsv. hafa yfirumsjón með vöktum á strandstað að beiðni lögreglu og eigenda skipsins.

 

Bjögunarferlið:

 

Eigendur og útgerðaraðilar Baldvins Þorsteinssonar EA höfðu yfirumsjón með björgunaraðgerðum.

 

Dagur 1. (9. mars 2004)TF - LIF©Baldur Sveinsson

 

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og Álftaveri ásamt TF-LÍF þyrlu Landhelgisgæslunnar komu á strandstað við Skarðsfjöruna.  Vindur stendur að landi.

 

Varðskip á leið á strandstað og ætlar að reyna að draga Baldvin Þorsteinsson EA á flot á flóðinu síðdegis.  Háflæði við Skarðsfjöru var klukkan 19:15.  Varðskipið var væntanlegt á strandstað um hádegið. 

 

Veðurspáin fyrir svæðið er ekki of góð.  Spáð var sunnan og suðvestan 10 til 15 m/s og átti hvessa um kvöldið.

 

Dagur 2. (10. mars 2004)

 

Varðskip átti að reyna að ná Baldvini Þorsteinssyni EA af strandstað á kvöldflóðinu.

 

Útgerðarfélag og tryggingaraðili  skipsins semja við norskt fyrirtæki um leigu á sérhæfðu dráttarskipi, Normand Mariner, til að draga Baldvin Þorsteinsson EA af strandstað.

 

Varðskipið TÝR©Hilmar Snorrason

 

Normand Mariner lagði af stað frá Bergen kl. 10:00 að íslenskum tíma og sigldi á 15 mílna hraða. Áætlaður siglingatími til Íslands var um tveir og hálfur sólarhringur.

 

 

Norska dráttarskipið “Normand Mariner”:

 

Dráttarskipið Normand Mariner var í eigu Solstad Supply og hafði Seabrokers Chartering AS í Noregi milligöngu um leiguna.  Normand Mariner var af gerðinni Ulstein A101 og var 82 metra langt og 20 metra breitt.  Það var með samtals 23.478 hestafla vélar, sem gefa 282 tonna togátak frá skrúfum þess.  Skipið var einnig búið tveimur hliðarskrúfum að framan 1100 kW og 1200 kW og tveimur að aftan, hvor um sig 880 kW.  Skipið var með tvær dráttarvindur, 400 tonna og 500 tonna, þrjá þilfarskrana, tvær hjálparvindur hvor með um 170 tonna átaki og ýmsan annan sérhæfðan búnað.  Skipið var búið svokölluðu Dynamic Position System stýrikerfi, sem heldur skipinu stöðugu á ákveðnum stað.

Dráttarskipið Normand Mariner©NN

Einnig var  samið um leigu á 2.500 m löngu dráttartógi, sem þoldi 800 tonna átak.  Þetta er tóg, sem flýtur á sjónum og er í 500 m lengjum, sem lásaðar eru saman með sérstökum búnaði.  Tógið kom með Normand Mariner.

 

Kl. 14:30 óskar eigandi skipsins að björgunarsveitir komi með bát og fluglínutæki á strandstað.

 

Aðili frá rannsóknarnefnd sjóslysa kom á strandstað, til ræða við aðila og skoða aðstæður.  Veður hamlar björgunaraðgerðum og þeim frestað.

 

Dagur 3. (11. mars 2004)

TF-LIF fer með ellefu skipverja um borð í Baldvin Þorsteinsson EA kl. 16:15.  Skipið skoðað, gengið frá öllu lauslegu og línu skotið í land.  Aðgerðum frestað um kl. 17:00.

 

Dagur 4. (12. mars 2004)

TF-SIF fer með skipverjanna út í skipið kl. 14:15.  Skipverjarnir vinna að undirbúningi björgunar.  Norski dráttarbáturinn, Normand Mariner, kominn á staðinn. 

Eitt tækjanna, hjólabátur á strandstað©Jón A Ingólfsson

Björgunarsveitir flytja tóg frá Bakkakoti að strandstað.  Trossur fluttar út í norska dráttarbátinn, Normand Mariner.  Einn skipverja fer um borð í dráttarbátinn.  TF-SIF flytur mannskap í land kl. 19:45.  Aðgerðum hætt um kl. 23:00.

 

Dagur 5. (13. mars 2004)

Björgunarsveitarmenn leggja af stað á strandstað kl. 08:00 en þurfa að bíða við Bakkakot til kl. 13:00 vegna sandstorms á strandstað.

 

TF-SIF fer með skipverjana út í skipið kl. 13:40.  Skipverjarnir vinna að undirbúningi björgunar.  Lögreglan lokar aðgengi almennings inn á svæðið.

 

Tóg flutt  frá Bakkakoti á strandstað.

 

Dagur 6. (14. mars 2004)

TF-SIF fer með skipverjanna út í skipið kl. 08:00.  Skipverjar koma dráttarkeðjum fyrir í klussi og festa þær í stálsamloku.   Því lokið á hádegi.  Nótin skorin úr skrúfunni.

 

Þyrlan notuð til flytja togvír í fjöruna.  Dráttartaugin tekin og tengd um borð í Baldvin Þorsteinsson EA.  Hún átti að þola 450 tonna átak.  Byrjað að reyna að draga skipið á flot á kvöldflóðinu eða upp úr kl. 23:00.

 

Aðili frá rannsóknarnefnd sjóslysa kom og fylgdist með á strandstað.

 

Dagur 7. (15. mars 2004)

Norska dráttarbátnum Normand Mariner tókst að draga Baldvin Þorsteinsson EA um 300 m um kl. 00:30.  Hluta úr loðnufarmi dælt fyrir borð til að létta skipið.  Taugin slitnaði við um það bil 180 tonna átak kl. rúmlega 01:00.  Ekki tókst að koma dráttartauginni fyrir aftur.  Veðurspá góð.

 

Tóg flutt  frá Bakkakoti á strandstað.

 

Dagur 8. (16. mars 2004)

Baldvin Þorsteinsson EA færðist nær landi og snérist þannig að stefnið var í átt að land.  Öllum sjó og loðnufarmi dælt í sjóinn.  Dráttartaug komið fyrir.

 

Dagur 9. (17. mars 2004)

Norska dráttarbátnum Normand Mariner tókst að draga Baldvin Þorsteinsson EA á flot upp úr kl. 02:00.  Byrjað var að snúa skipinu í fjörunni upp úr kl. 01:00.

 

Það tókst að ná Baldvini Þorsteinssyni EA á flot upp úr kl. 02:00.

 

Björgunarsveitir hreinsuðu fjöruna og var því lokið um kl. 17:00. 

 

Tæki sem komu að verkinu frá björgunarsveitum voru m.a. torfærubifreið, stjórnstöðvarbifreið, bátur, 3 sett af sjóbjörgunarbúnaði og handtalstöðvar.

 

Allan tímann sem skipið var á strandstað vöktuðu björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitunum Víkverja, Kyndli og Lífgjöf skipið.

 

Eftirmáli og skemmdir:

 

Ákveðið var í fyrstu að draga Baldvin Þorsteinsson EA til Eskifjarðar en frá því var horfið þegar skipin voru lögð af stað og haldið til Noregs.  Baldvin Þorsteinsson EA  var dreginn til Monkstad í Noregi og var komið þangað þann 19. mars 2004.  Skipið var tekið í flotkví hjá Miklebust-skipasmíðastöðinni rétt við Álasund.

 

Í ljós kom að stálplata ofan á stýri var beygluð og sveigð upp á við þannig að stýrið virkaði ekki.  Töluverð vinna var einnig við gír og kúplingu.

 

Sjópróf voru haldin á Akureyri þann 25. mars 2004, mál nr. P-/2004 að beiðni Samherja hf., útgerðarfélags skipsins.

 

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að skipið var við loðnuveiðar á 20 faðma dýpi;
 • að við veiðarnar var notuð 55 faðma nót;
 • að skipstjórinn hafði verið við störf í brú í 17 til 18 tíma þegar skipið strandaði;
 • að í skipinu voru um 500 þúsund lítra olíubirgðir;
 • að ekki var til dráttarskip á landinu til að draga skip af þessari stærð af þessum strandstað auk þess var annar búnaður til slíks ekki tiltækur;
 • að fyrir dómi (við sjópróf) lýsti skipstjóri atburðarrásinni með eftirfarandi hætti:  Að þeir hefðu komið á svæðið um kl. 23:00, hann hefði ekki skráð það nákvæmlega í dagbókina.  Þá voru skip þarna fyrir á veiðum og hann hefði ákveðið að bíða eftir birtingu því það hefði verið betri veiði þarna yfir birtutímann. Einnig ætlaði hann að sjá til hvernig viðraði.  Þeir hefðu svo byrjað veiðar þarna kl. 08:00 að morgni og voru að kasta sjötta kasti, samkvæmt tímaskráningu, kl. 23:30 um kvöldið.  Þá voru þeir á stað 63°31´158N og, 17°53´141V.  Áður en þeir köstuðu hefðu þeir, eins og alltaf, farið hringinn yfir svæðið sem þeir kasta á og skoðað lóðninguna.  Ákveðið var að kasta þarna og var kastað þarna vestan við suður og á 20-25 faðma botndýpi þegar byrjað var.  Eftir að þeir voru búnir að draga ca 1/3 af nótinni var skipið með skutinn upp í vindinn og aðalvélina á afturákeyrslu en þá missti hliðarskrúfan án skýringa skyndilega afl tímabundið á bakborðskeyrslu. Hann setti hana augnablik yfir í stjórnborða og aftur til baka og í báðum tilfellum virkaði hún eðlilega.  Við þetta snerist  skipið og var með vindinn á bakborðssíðuna og eftir skamma stund var allt komið í skrúfuna.  Hann kallað strax út á vinnurásinni sem var VHF rás 11 og lét nærstödd skip vita hvað hafði gerst og fljótlega kom Bjarni Ólafsson AK til þeirra því hann var aðeins um 2-300 faðma fyrir aftan þá.  Þeir hófust þegar handa við að koma fastsetningartógi milli skipanna og gekk það tiltölulega vel.  Fljótlega eftir að þeir byrjuðuað toga slitnaði önnur stroffan.  Skipið var farið að þokast aðeins af stað í drættinum þegar hin slitnaði líka.  Þá var farið í að gera kláran snurpuvír en það gekk frekar erfiðlega að koma honum á milli skipanna.  Hann hafði samband við Landhelgisgæsluna (LHG) strax þegar nótin var komin í skrúfuna og var það kl. 03:12.  Þegar búið var að koma vírnum frá Bjarna Ólafssyni AK og hann gat byrjað að toga þá fór rör á spili hjá honum.  Þeir settu  bremsu á en hún hélt ekki og þá settu þeir keðjuvasa á vírinn en þá slitnaði hann.  Þá var skipið komið í fyrstu grynninguna og aðeins farið að taka niðri.  Eftir þetta segist skipstjóri hafa verið í stöðugu sambandi við LHG og reyndi að átta sig á því hvernig hægt væri að stýra skipinu upp í fjöruna.  Það hafi verið svolítil brot úti á fyrstu grynningunni.  Hann setti út hleranna samkvæmt ráðleggingum yfirmanns gæsluframkvæmda LHG og hann lagði einnig til að reynt yrði að setja stefnið upp í fjöruna.  Á þessum tíma var skipstjóri einnig kominn í samband við björgunarsveit (BSV).  Honum hafi fundist sjálfum að betra væri að hafa stefnið út og nota afturþunga til að koma í veg fyrir að það færi ofarlega í sandinn.  Hann hefði því látið akkeri fara þegar skipið fór yfir fyrstu grynninguna og byrjaði þá skipið að snúast á rólegum snúningi og hann endaði með skutinn í strand.   Akkerið hélt ekki heldur sneri það aðeins skipinu.  Eftir að hafa tekið aftur niðri strandaði skipið á stað 63°33,17N og 17°53,14V.  Hann var ekki með tímann skráðann á strandinu.  Honum hafi verið sagt að björgunarsveitirnar væru komnar niður á sandinn og þyrla á leiðinni.  Á þessum tíma var megnið af áhöfninni komin á stjórnpall og beðið var eftir komu þyrlunnar. (Mál nr. P-1/2004)
 • að verið var að hífa nótina með kraftblökkinni.  Skipverjar við blökkina  tóku eftir að hífing fór að þyngjast og fljótlega þurfti að hætta henni.  Nótin var ekki óklár í blökkinni;
 • að engin skýring var á því af hverju aftari hliðarskrúfan missti afl.  Verið var að beita henni til bakborða, frá nótinni.  Í ljós kom eftir að skipið var komið á land að grannur endi var í skrúfunni en ekki er vitað hvort það var ástæða fyrir aflmissinum.  Önnur hugsanleg skýring er sú að loðnupoki hafi farið undir kjölinn og upp með bakborðssíðunni og lokað fyrir innsog skrúfunnar.  Fram kom að lóðlína frá blökk og aftur í skrúfu hafi verið um 20-30m;
 • að heildarafl hliðarskrúfunnar var 800 kW þegar allt var í lagi;
 • að lega skipsins þegar nótin fór í skrúfuna var þannig að skuturinn var upp í veðrið og 40° skurður á skrúfunni;
 • að skipið var farið að snerta botninn þegar ákveðið var að setja út bæði akkerin.  Skipstjóri taldi það ekki ráðlegt fyrr þar sem skip var fyrir framan við björgunarstörf;
 • að skipstjórinn hafði ekki fengið veiðarfæri í skrúfu áður;
 • að til að koma björgunarbúnaði fyrir þurfti að skera annað akkerið burtu, hitt hafði slitnað;
 • að hægt var að nota spil og krana fram á skipinu og hafði það að mati skipverja úrslitaáhrif á að hægt var að koma æskilegum björgunarbúnaði fyrir;
 • að til að koma fyrir öflugum festingum í skipið voru sverar keðjur frá dráttarbátnum settar í akkeriskluss báðum megin.  Þær voru hvor um sig 12m langar, 1,5 tn að þyngd og með um 500 tn. slitþol.  Að mati skipverja hefðu þær þurft að vera lengri en lengdin takmarkaðist af burðargetu þyrlu LHG.  Til að koma keðjunum fyrir þurfti að slaka þeim niður um bæði akkeriskluss og hífa þær upp á lunningu til að tengja þær við dráttartaugar.  Til þessa verks var notaður kraninn fram á bakka og akkerisspilið.  Þetta verk tók um það bil 2 klst;
 • að til að festa keðjurnar í klussinu þurfti að skera burtu akkerisklemmur.  Þetta var gert til að koma fyrir tveimur sérsmíðuðum stálsamlokum sem keðjurnar voru festar í.  Þessar stálsamlokur voru hvor um sig 800 kg.  Undir stálsamlokurnar voru settar 14mm fóðringar yfir klussið á þilfari til að dreifa átaki.  Þyrla LHG kom með stálsamlokurnar um borð og setti þær á þilfarið.  Við þetta verk notuðu skipverjar krana og akkerisspil. Þetta verk tók um það bil 2 klst.  Samanlagt tók það um það bil 4 klst. að koma fyrir æskilegum búnaði um borð í Baldvini Þorsteinssyni EA, þ.e. tveimur keðjum og festingum fyrir þær í, sem annarsvegar kom með norska dráttarskipinu og hinsvegar þurfti að sérsmíða í vélsmiðju; 
 • að dráttarskipið var með Polyester tóg, slitþol 800 tn, 18-20% teyging og sekkur (leigutóg).  Það var fest við keðjulegg við dráttarbát.  Tógið var síðan sett einfalt í hanafót sem tengdur var í Baldvin Þorsteinsson EA.  Í hanafætinum var í fyrstu 2x8” vír, u.þ.b. 25m langir, síðan tók við 2x8m DYNEX tóg, yfirfléttað og síðast 2x10m DYNEX óyfirfléttað sem fest var í keðjurnar um borð.  Óyfirfléttaða DYNEX tógið slitnaði og var ástæðan talin sú að það hafði verið sett mislangt.  Eftir það var vírinn tengdur beint í keðjurnar eins og skipverjar á dráttarbátnum vildu gera strax.  Við það gekk að draga skipið af strandstað;
 • að fenginn var línuflokkur með öflug tæki frá Landsvirkjun til að taka inn 7,5 km af missverri tildráttartaug þannig að hægt var að koma aðal dráttartaug fyrir aftur í skipið eftir að sú fyrri slitnaði;
 • að dráttarbáturinn þurfti 60-70 tonna togátak til að taka yfirvarp og strekkja á taugunum.  Varðskipin Týr og Ægir eru með 60 tonna togátak hvort sem mesta átak;
 • að yfirstýrimaður af Baldvini Þorsteinssyni EA og aðili frá Hampiðjunni voru samtals í 5 daga við splæsingar og vinnu um borð í dráttabátnum.  Þeir splæstu allt sem þurfti að splæsa.  Skipverjar á dráttarbátnum unnu ekki með þessum hætti og vildu einungis nota lása og patent tengingar.  Það gekk ekki þar sem huga þurfti að blökkum o.s.fr.v.;
 • að áhöfn á dráttarbát voru 11 manns.  Dráttarbáturinn var í sínu fyrsta verkefni við að draga skip.  Skipið hafði verið notað við þjónustu við olíuborpalla;
 • að fengin var verktaki frá fyrirtækinu G. Hjálmarsson ehf á Akureyri til að vinna og stjórna aðgerðum ásamt verkefnum á strandstað.  Fyrsta verkefni hans var að leggja um 15 km veg að strandstaðnum og til þess þurfti að skera niður skurði og laga kanta.  Einungis hafði verið slóði þarna fyrir.  Leiðin niður að strandstað varð fljótlega illfær vegna aurs;
 • að til vinnunnar í fjörunni þurfti að kalla til fimm stórar jarðýtur og tvær beltagröfur, samtals um 100 tonn og mannaðar vönum mönnum.  Vélarnar voru notaðar við jarðvinnu og að snúa skipinu.  Fytja þurfti til um það bil 10–20 þúsund rúmmetra af efni áður en hægt var að nota tækin við verkið.  Þrátt fyrir mikla jarðvinnu var erfitt að koma taugum á sinn stað og nokkrum sinnum slitnaði;
 • að eftir að aðgerðum lauk var mikil vinna við allan frágang á svæðinu.  Hreinsa þurfti víra, kaðla, kefli og fleira sem notað var, samtals um 40-50 tonn og koma því af staðnum.  Lagfæra þurfti um það bil 12-15 km af vegum og slóðum.
 
 

 Nefndarálit
 

Nefndarálit:

 

Orsök þess að skipið strandaði var sú að það fékk veiðarfæri í skrúfuna.

 

Nefndin telur að löng varðstaða skipstjóra hafi ekki verið til fyrirmyndar og ekki til þess fallin að auka á öryggi skips og áhafnar.

 

Nefndin telur að þetta óhapp sýni vel mikinn vanmátt í neyð stærri skipa við strendur landsins.  Skip sem fara um lögsögu Íslands hafa farið stækkandi á undanförnum árum og eru vaxin yfir þann björgunarbúnað sem tiltækur er á landinu.

 

 

Sérstök ábending:

 

Nefndin hvetur skipstjórnar- og útgerðarmenn að gera sérstakar verklagsreglur um að koma viðeigandi dráttartaug frá skipi og sjá til þess að áhöfn verði þjálfuð þar að lútandi.

 
 

 Tillögur í öryggisátt
 

Nefndin telur ástæðu til að draga lærdóm af þessu óhappi.  Hefði ekki verið um að ræða sterkbyggða skipagerð hefðu afleiðingar óhappsins getað orðið mun alvarlegri. 

 

Í því ljósi vill nefndin setja fram eftirfarandi tillögu í öryggisátt:

 

 • Að Landhelgisgæsla Íslands fái til umráða sem fyrst dráttar- og björgunarskip að þeirri stærð sem getur dregið sem flest skip sem eru í siglingum við strendur landsins.
 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [3.238.118.80] sunnudagur 04. desember 2022 09:28 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis