Hinn 20. janúar 2000 var m.b. Manni á Stað SU-100 á siglingu frá Breiðdalsvík til Stöðvarfjarðar. Veður: hægviðri.
Þegar báturinn var staddur fyrir sunnan Kambanes á móts við Iðusker fannst stjórnanda hans báturinn vera orðinn óeðlilega þungur. Þegar að var gáð kom í ljós að nokkur sjór var kominn í bátinn, lest, vélarrúm og vistarverur. Skipstjóri sem var einn á bátnum kallaði eftir aðstoð og stöðvaði vélina. Eftir að vélin var stöðvuð hætti innrennsli sjávar í bátinn að mestu.
Báturinn var dreginn til hafnar af öðrum báti.
Við athugun kom í ljós að rör frá sjókælinum fyrir vélina var í sundur og dældi vélin sjó inn í bátinn á meðan hún var í gangi. Var rörið tært í sundur þar sem það var tengt við slöngu.
Við rannsókn kom fram
að tveir voru skráðir á bátinn en aðeins einn um borð;
að viðgerðir voru framkvæmdar af eigendum og með aðstoð frá verkstæðum eftir þörfum.
Nefndarálit
Nefndin telur að atvik þetta sýni nauðsyn þess að fram fari skipulagt eftirlit með vélbúnaði skipa (fyrirbyggjandi viðhald). Búnaður, sem gefur viðvörun ef vökvi safnast fyrir í rými/rýmum skips, hefði getað varað stjórnanda fars fyrr við yfirvofandi hættu hefði hann verið fyrir hendi og í lagi.
Tillögur í öryggisátt
Nefndin leggur til að búnaður, sem gefur viðvörun, ljós eða hljóðmerki, ef vökvi safnast fyrir í rýmum skips, verði gerður að skyldubúnaði um borð í skipum. Skipstjórnarmönnum verði gert skylt að prófa þennan búnað reglulega (vikulega eða oftar) og bóka um prófun í dagbók skips.