Þann 18. janúar 2004 var Mánafoss á leið út frá Vestmannaeyjum. Veður: S 7 m/s, hiti 9°c og súld. Djúprista: 5,5 m að framan og 6,0 m að aftan. Fjöruliggjandi var kl. 22:53.
Mánafoss fór frá bryggju kl. 23:15 og var skipstjóri einn á stjórnpalli við stjórntök. Kl. 23:25 þegar skipið var komið út fyrir hafnargarð tók yfirstýrimaður, sem var nýkominn á stjórnpall, eftir að rauða baujan var of mikið á stjórnborða. Hann lét skipstjórann vita sem beygði strax til stjórnborða. Í beygjunni slóst afturendi skipsins að Heimakletti, með þeim afleiðingum að skipið kenndi grunns og varð vélaravana og stjórnlaust.
Mikill reykur kom upp í vélarúmi og brunaviðvörunarkerfið fór í gang. Um tíma héldu skipverjar að eldur hefði orðið laus í vélarúmi og var brugðist við í samræmi við neyðaráætlun skipsins og reykkafarar undirbúnir þar sem óttast var að vélstjóri væri lokaður niðri í vélarúmi. Fljótlega kom í ljós að svo var ekki og reykurinn stafaði frá núningi frá gúmmíum á rafal sem hafði farið á milli gírs og vélar við að skipið kenndi grunns. Eftir að aðalvél var stöðvuð fór reykurinn minnkandi í rýminu.
Skipið sem var laust rak áfram stjórnlaust (mynd á næstu síðu) útfyrir rauðu baujuna á Skansfjöru, utan í Skansfjöru og áfram út fyrir Klettsnefið. Þar rakst stefnið í bergið í víkinni suður af Bónda.
Skipverjar fóru í lestar til að athuga hvort leki væri sjáanlegur en svo var ekki. Hófust þeir þá handa við að taka á móti dráttarbát sem óskað hafði verið eftir að kæmi skipinu til aðstoðar.

Björgunarferli:
Þegar skipið lagðist utan í Skansfjöruna kallaði skipstjóri á Vestmannaeyjahöfn og óskaði eftir aðstoð dráttarbáts til að freista þess að ná skipinu til hafnar aftur. Mjög fljótt tókst að manna dráttarbátinn Lóðsinn með þremur mönnum og var hann kominn að skipinu um hálftíma eftir að skipið tók fyrst niðri eða kl. 23:44. Þá var Mánafoss kominn austur fyrir Klettsnefið. Lóðsinn tók taug (landfestartóg) frá Mánafossi út úr stjórnborðsklussi en hún slitnaði fljótlega. Önnur taug var tekin frá Mánafossi og dugði hún til að draga skipið úr frekari hættu og inn til hafnar.
Við þessar aðgerðir skemmdist Lóðsinn lítillega við að slást undir kinnung Mánafoss þegar seinni taugin var tekin.
Kl. 00:47 var búið að binda Mánafoss við Binnabryggju í Vestmannaeyjum.
Skemmdir:
Eftir að Mánafoss var kominn að bryggju var fenginn kafari til að skoða skemmdir. Í ljós kom að skrúfa skipsins hafði tekið niðri og var illa farin, eitt blaðið var alveg farið af, tvö blöð illa farin en eitt virtist í lagi. Stýri var einnig laskað. Dældir og rispur voru á stjórnborðssíðu og botn dældaður aftur við skut. Botnstykki dýptarmælis hafði farið af, sjáanlegar skemmdir voru á perustefni og mikill olíuleki úr skutpípu.
Um 2000 tonna farmur var í skipinu þegar þetta gerðist. Mánafoss var dreginn til Reykjavíkur og þaðan til viðgerðar á Akureyri.
|