RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
003/03  51385-22.12.04
062/00  61517-21.12.04
061/04  50217-23.11.04
059/04  43520-23.11.04
031/04*  38302-23.11.04
009/04  48323-23.11.04
105/01  41984-17.11.04
082/00  74005-23.09.04
013/00  65546-23.09.04
041/00  67320-23.09.04
 6 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 031/04  - Mánafoss 
  Mánafoss tekur niðri í Vestmannaeyjum   
 Heimsóknir: 38303 Uppfært: 23.11.04 

  Mánafoss
Skipaskr.nr.: IMO 9160944
Smíðaður: Kína 1999
Stærð: 4.450,00 brl;  bt
Lengd: 100,60 m Breidd: 18,80 m Dýpt:  m
Vél: MAN B&W 3.960,00 kW Árgerð: 1999
Annað: 
Fjöldi skipverja: 12 

 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 18. janúar 2004 var Mánafoss á leið út frá Vestmannaeyjum.  Veður: S 7 m/s, hiti 9°c og súld.  Djúprista: 5,5 m að framan og 6,0 m að aftan.  Fjöruliggjandi var kl. 22:53.

 

Mánafoss fór frá bryggju kl. 23:15 og var skipstjóri einn á stjórnpalli við stjórntök.  Kl. 23:25 þegar skipið var komið út fyrir hafnargarð tók yfirstýrimaður, sem var nýkominn á stjórnpall, eftir að rauða baujan var of mikið á stjórnborða.  Hann lét skipstjórann vita sem beygði strax til stjórnborða.  Í beygjunni slóst afturendi skipsins að Heimakletti, með þeim afleiðingum að skipið kenndi grunns og varð vélaravana og stjórnlaust. 

 

Mikill reykur kom upp í vélarúmi og brunaviðvörunarkerfið fór í gang.  Um tíma héldu skipverjar að eldur hefði orðið laus í vélarúmi og var brugðist við í samræmi við neyðaráætlun skipsins og reykkafarar undirbúnir þar sem óttast var að vélstjóri væri lokaður niðri í vélarúmi.  Fljótlega kom í ljós að svo var ekki og reykurinn stafaði frá núningi frá gúmmíum á rafal sem hafði farið á milli gírs og vélar við að skipið kenndi grunns.  Eftir að aðalvél var stöðvuð fór reykurinn minnkandi í rýminu.

 

Skipið sem var laust rak áfram stjórnlaust (mynd á næstu síðu) útfyrir rauðu baujuna á Skansfjöru, utan í Skansfjöru og áfram út fyrir Klettsnefið.  Þar rakst stefnið í bergið í víkinni suður af Bónda.

 

Skipverjar fóru í lestar til að athuga hvort leki væri sjáanlegur en svo var ekki.  Hófust þeir þá handa við að taka á móti dráttarbát sem óskað hafði verið eftir að kæmi skipinu til aðstoðar.

Björgunarferli:

 

Þegar skipið lagðist utan í Skansfjöruna kallaði skipstjóri á Vestmannaeyjahöfn og óskaði eftir aðstoð dráttarbáts til að freista þess að ná skipinu til hafnar aftur.  Mjög fljótt tókst að manna dráttarbátinn Lóðsinn með þremur mönnum og var hann kominn að skipinu um hálftíma eftir að skipið tók fyrst niðri eða kl. 23:44.  Þá var Mánafoss kominn austur fyrir Klettsnefið.  Lóðsinn tók taug (landfestartóg) frá Mánafossi út úr stjórnborðsklussi en hún slitnaði fljótlega.  Önnur taug var tekin frá Mánafossi og dugði hún til að draga skipið úr frekari hættu og inn til hafnar. 

 

Við þessar aðgerðir skemmdist Lóðsinn lítillega við að slást undir kinnung Mánafoss þegar seinni taugin var tekin.

 

Kl. 00:47 var búið að binda Mánafoss við Binnabryggju í Vestmannaeyjum. 

 

Skemmdir:

 

Eftir að Mánafoss var kominn að bryggju var fenginn kafari til að skoða skemmdir.  Í ljós kom að skrúfa skipsins hafði tekið niðri og var illa farin, eitt blaðið var alveg farið af, tvö blöð illa farin en eitt virtist í lagi.  Stýri var einnig laskað.  Dældir og rispur voru á stjórnborðssíðu og botn dældaður aftur við skut.  Botnstykki dýptarmælis hafði farið af, sjáanlegar skemmdir voru á perustefni og mikill olíuleki úr skutpípu.

 

Um 2000 tonna farmur var í skipinu þegar þetta gerðist.  Mánafoss var dreginn til Reykjavíkur og þaðan til viðgerðar á Akureyri.

 

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að skipstjórinn var mjög reyndur og hafði oft farið þarna um við svipaðar aðstæður.  Hafnsögumaður var ekki um borð þar sem skipstjórinn hafði heimild hafnarinnar fyrir að sigla um höfnina án hafnsögumanns sökum reynslu sinnar.  Þetta var munnlegt leyfi sem sótt var um af hálfu útgerðar skipsins fyrir hans hönd;
 • að skipstjórinn kvaðst ávallt hafa yfirstýrimann hjá sér í brú við stjórnun skipsins til öryggis;
 • að skipstjóri var sjálfur við stýrið og taldi skipið vera á um 5 hnúta ferð sem sé besta stjórnhæfnisferð þess.  Hann mat stjórnhæfni skipsins mjög góða;
 • að staðsetning skipstjóra við stýrið var fyrir miðju skipinu.  Hann kvaðst þar hafa góða yfirsýn fram en enga aftur.  Hann sá rauðu Skansfjörubaujuna vel á siglingunni en misreiknaði afstöðu til hennar;
 • að fram kom hjá yfirstýrimanni í sjóprófum að þegar hann kom á stjórnpall var skipið við Hörgeyrina og var skipstjórinn að beygja þar fyrir.  Tók hann þá eftir að skipstjórinn beygði allt of mikið í bakborða og sagði honum að rauða baujan væri allt of mikið á stjór.  Fannst honum sem skipið stefndi á klettinn.  Skipstjórinn beygði þá strax til stjórnborða og fór yfirstýrimaðurinn út á brúarvæng og sagði að skipið væri að lenda á klettinum í því að skipið kenndi grunns;
 • að skipstjórinn notaði aldrei leiðsögumerki við siglingu út úr höfninni.  Fram kom hjá hafnsögumanni hafnarinnar að hann notaði ekki leiðsögumerkin við slíkar aðstæður.  Eftir að hafnargarði sleppti var siglt eftir Skansfjörubaujunni (rauð) auk þess sem grænt ljós er á Klettsnefi.  Bæði merkin sáust vel við þessar aðstæður;
 • að umræða hefur átt sér stað um að sett yrði ljós í Heimaklett en ekki hefur formlega verið beðið um að svo yrði gert.  Skipstjóri Mánafoss taldi mikla ástæðu til að þarna væri viðeigandi ljós til að merkja klettinn;
 • að fram kom hjá skipstjóra að mikil lýsing væri inn á höfninni og skyndilegt myrkur væri varhugavert og lítill tími fyrir augu til að venjast myrkrinu sem tæki við þegar siglt væri út úr höfninni.  Við athugun kom í ljós að um 500 m (fimm skipslengdir) voru frá þeim stað sem ljósum sleppti og þar sem skipið tók niðri.  Miðað við uppgefna 5 hnúta ferð tók það skipið 3 mínútur að fara þessa leið;
 • að um 75 metrar (sjá mynd) eru frá leiðarlínu að 4 metra grunnkanti við Heimaklett.  Mánafoss var því, miðað við breidd skipsins, kominn um 65 metra NV út úr línunni;
 • að akkeri voru ekki höfð í viðbragðsstöðu.  Að sögn skipstjóra taldi hann það ekki ráðlegt enda ónothæf vegna lagna (sjá mynd) á botni innsiglingarinnar.  Þarna liggja tvær vatnsleiðslur, tvær rafmagnsleiðslur og ljósleiðari;
 • að vitað er af hruni úr Heimakletti sem er sjáanlegt á fjöru.  Faglegar athuganir höfðu ekki verið gerðar á því hversu mikið hefur fallið úr klettinum.  Síðustu dýptarmælingar á innsiglingunni voru gerðar 1994;
 • að nefndin lét kafa við Heimaklett í júní og fundu kafarar þá skrúfublaðið, sem brotnaði af þegar skipið tók niðri.  Það reyndist á 9, 2 metra dýpi og á stað 63° 26’ 835 N og 20° 15’ 550 V.  Þessi staðsetning er um það bil 10 metra frá klettinum (sjá mynd) og því ljóst að skipið var komið út úr leiðarlínu.  Var varla ákomu að sjá á skrúfublaðinu.

 
 

 Nefndarálit
 

Orsök óhappsins er vanmat skipstjóra á afstöðu skipsins til leiðarlínu út úr höfninni og til rauðu innsiglingabaujunnar þegar skipinu var siglt út úr höfninni.

 

Nefndin ítrekar fyrri ályktanir sínar í sambærilegum atvikum þar sem hún átelur það verklag, sem virðist vera orðið algengt, að skipstjóri sé við stýrið á varhugaverðum leiðum og/eða aðstæðum þegar og þar sem þörf er á góðri yfirsýn og árvekni.

 

Nefndin telur óheppilegt að skip geti ekki notað akkeri í neyð vegna neðansjávarlagna.   
 

 Tillögur í öryggisátt
 

Nefndin telur ástæðu til eftirfarandi tillagna í öryggisátt fyrir höfnina í Vestmannaeyjum.

 

 1. Að endurskoðuð verði öll siglinga- og leiðarmerking til hafnarinnar.  Nefndin telur að regluleg endurskoðun á siglingamerkjum sé bæði eðlileg og nauðsynleg og hún taki þá mið af breyttu umhverfi svo sem umferð, skipakosti, umhverfismálefnum og ekki síst öryggisþáttum.
 2. Að skoðaðir verði möguleikar á að færa sjólagnir þær sem eru í siglingaleið til hafnarinnar.
 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [44.211.239.1] þriðjudagur 07. febrúar 2023 13:32 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis