RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
003/03  51387-22.12.04
062/00  61517-21.12.04
061/04  50217-23.11.04
059/04  43520-23.11.04
031/04  38303-23.11.04
009/04  48324-23.11.04
105/01  41986-17.11.04
082/00 74005-23.09.04
013/00  65546-23.09.04
041/00  67320-23.09.04
 6 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 082/00  - M.b. Jón Kjartansson SU-111
  Jón Kjartansson SU-111, eldur í vélarrúmi   
 Heimsóknir: 74006 Uppfært: 23.09.04 

  M.b. Jón Kjartansson SU-111
Skipaskr.nr.: 0155
Smíðaður: í Þýskalandi 1960 úr stáli
Stærð: 835,96 brl; 1.399,00 bt
Lengd: 68,89 m Breidd: 10,40 m Dýpt: 7,94 m
Vél: Wartsila 4.920,00 kW Árgerð: 1999
Annað: Skipið var endurbyggt 1998
Fjöldi skipverja: 14 

Jón Kjartansson ©Jón Sigurðsson 
 

 Atvikalýsing
 

Hinn 16. ágúst var m.b. Jón Kjartansson SU-111 að veiðum með flotvörpu suðaustur af Íslandi.

Var verið að toga og fyrsta hol í veiðiferðinni. Skipinu var snúið til stjórnborða með stýri hart í borð. Við það hallaðist skipið 30° eða meira að sögn skipstjóra.

Vakthafandi vélstjóri var í vaktklefa vélarrúms á meðan skipinu var snúið. Um það leyti sem skipið fór að rétta sig af tók vélstjórinn eftir því að birti til í vélarrúminu og er hann leit yfir sá hann að eldur logaði ofan á hlíf yfir afgasgreinum vélarinnar. Fór hann úr klefanum og lagði af stað upp úr vélarrúminu. Á leiðinni sá hann að olía rann af daggeymi vélarinnar og niður á vélina en daggeymirinn er beint fyrir ofan vélina.

Tilkynnt var á stjórnpall um að eldur væri laus í vélarrúmi og um sama leyti fór viðvörunarkerfið í gang. Skipverjar voru ræstir, aðalvél stöðvuð með neyðarstöðvunarbúnaði og öllum loftrásum að vélarrúmi lokað. Síðan var HALON-slökkvimiðli hleypt inn í vélarrúmið. Skipverjar tóku björgunarbúninga og handtalstöðvar og fluttu fram á skipið. Skipstjóri hafði samband við strandstöð og nærliggjandi skip og gerði grein fyrir ástandinu.

Fljótlega kom m.b. Sunnuberg NS-70 að og var sjóslöngu komið fyrir á milli skipanna og hún tengd með alþjóðabrunaslöngutengi við brunalögn m.b. Jóns Kjartanssonar SU-111. Þegar þrýstingi var hleypt á kom í ljós að ekki náðist upp neinn þrýstingur um borð í m.b. Jóni Kjartanssyni SU-111. Var þá gripið til þess ráðs að hafa bara eina slöngu tilbúna þar sem brunalagnir virkuðu ekki.

Skipstjóri hafði samband við Slökkvilið Reykjavíkur og leitaði ráðlegginga um framhald. Var honum ráðlagt að bíða að minnsta kosti í tvær klukkustundir áður en opnað yrði niður í vélarrúmið. Skipverjar biðu í rúmar tvær klukkustundir og fylgdust með hvort hiti ykist á þiljum vélarrúms. Þegar ekki varð vart neinna hitabreytinga var farið inn um neyðarútgang úr vaktklefa vélarrúms sem er í vistarverum skipverja aftan við vélarrúmið. Var sáralítill reykur í vaktklefanum og ekki mikill reykur í vélarrúminu. Ekki fannst eldur eða glóð í vélarrúmi og var því tekið til við að opna og reykræsta vélarrúmið og undirbúa gangsetningu véla. Eftir að náðst hafði þrýstingur á ræsiloft var ljósavél gangsett og eftir nokkrar lagfæringar tókst að koma aðalvél skipsins í gang og sigla skipinu fyrir eigin vélarafli til hafnar. Þegar ljóst var að skemmdir voru litlar um borð var beiðni um aðstoð afturkölluð.

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að snúningur skipsins með 30° halla eða meira hafði tekið 20 mínútur eða meira;
 • að einn skipverja, sem var á þilfari þegar skipinu var snúið, sagði að hann hefði séð olíu koma upp um loftrör stjórnborðsmegin;
 • að upplýst er að olía kom upp um öndunarrör fyrir yfirfallsgeyma bakborðsmegin en það er einu þilfari ofar en öndunarrör stjórnborðsmegin;
 • að í ferðinni á undan hafði skipið viðkomu í Færeyjum þar sem tekin var olía. Í skipinu er 44 m3 andveltigeymir sem tengdur er olíugeymakerfi skipsins og var þessi geymir fylltur af olíu. Andveltigeymirinn er undir veðurþilfari og nær yfir rúma 3/4 hluta af breidd skipsins. Öndunar- eða yfirfallsop eru í hvorri síðu geymisins og liggja þau í slaufu upp fyrir veðurþilfar. Ná yfirfallsrörin (slaufan) 60-80 cm yfir veðurþilfarið;
 • að ef andveltigeymir er fullur af olíu rennur af honum niður á yfirfallsgeyma ef halli skipsins verður 4-5°. Við 30° halla á skipinu getur runnið allt að 65-70% af geyminum niður á yfirfallsgeymana eða þrisvar sinnum það magn sem þeir rúma;
 • að yfirfallslagnir olíugeyma, þvermál 75 mm, eru sameinaðar í eina lögn í hvorri síðu og liggja þær niður í tvo yfirfallsgeyma (botngeymar nr. 7, stb. og bb.) í botni skipsins. Hvor geymir er talinn rúma um 4,2 - 4,5 m3. Á milli yfirfallslagnanna stb. og bb. er tenging sem liggur þvert yfir skipið í vélarrúminu. Þessa tengingu milli yfirfallslagna er ekki að finna á teikningum fyrir skipið. Vegna tengingar á milli yfirfallslagna rennur á milli geymanna þegar annar fyllist;
 • að á öndunarröri fyrir bb.-yfirfallsgeymi, þvermál um 75 mm, var tengd hliðargrein sem hafði verið öndunarop fyrir daggeymi sem var í skipinu fyrir vélaskipti sem fram fór í lok ársins 1999. Lá rörið frá bb.-síðunni og inn í mitt skipið og var endi þess opinn yfir daggeymi sem settur var þegar vélaskiptin fóru fram. Áður höfðu verið tveir daggeymar. Annar var fyrir gasolíu og hinn fyrir svartolíu;
 • að skipverjar á m.b. Jóni Kjartanssyni SU-111 fengu lánaða hlífðarbúninga um borð í m.b. Sunnubergi NS-70 en slíkir búningar voru ekki til um borð. Fram kom við rannsókn málsins að ákvæði eru í Torremolinos- samþykktinni um slíka búninga en svo virðist sem seinagangur sé hjá Íslendingum að lögfesta það;
 • að sjólagnir eldvarnarkerfis eru ekki í samræmi við samþykktar teikningar af búnaðinum. Búnaðinum var breytt þegar skipt var um vél en ekki fyrir hendi samþykkt teikning af þeim búnaði. Ekki voru einstefnulokar á sjólögninni og botnlokar voru opnir þegar eldur varð laus. Þar af leiðandi náðist ekki upp þrýstingur á kerfinu þegar tengt var við dælubúnað um borð í m.b. Sunnubergi NS-70;
 • að framvísað var teikningu (ósamþykktri) frá skipasmíðastöð í Póllandi af austur- og sjólögnum þar sem alvarlegur annmarki var á varðandi einstefnuloka;
 • að átakspunktur fyrir togvíra skipsins eru milli 9 og 10 metra fyrir ofan sjólínu.
 
 

 Nefndarálit
 

Nefndin telur orsök eldsvoðans ófullnægjandi frágang á lögnum við breytingar á skipinu. Við það að skipið hallaðist um eða yfir 30° til stjórnborða hafi runnið af andveltigeymi niður á yfirfallsgeyma þar til þeir hafi yfirfyllst og runnið út úr öndunarrörum geymanna. Vegna lagnar fyrir eldri daggeymi sem var opin yfir daggeymi í vélarrúmi hafi olían átt greiða leið inn í vélarrúmið og yfir vélina.

Þess ber að geta að viðbrögð skipverja við yfirvofandi hættu voru rétt.

Ekki hafi verið gengið frá teikningum af breytingum sem gera þurfti né tekið tillit til fyrri lagna í skipinu. Eftirliti með að teikningar séu í samræmi við smíðar skipsins sé áfátt og að réttar teikningar eru ekki fyrir hendi eins og skylt er samkvæmt lögum.

Vill nefndin benda á að slökkvibúnaður skipsins, sjódælubúnaður, var ekki í lagi þegar átti að nota hann þar sem breytingar höfðu verið gerðar frá gildandi teikningum. Ekki hafi verið í skipinu hlífðarbúnaður fyrir skipverja (eld og hitaþolinn) eins og æskilegt er. Benda má á að án slíks hlífðarbúnaðar er varhugavert að senda menn inn í rými þar sem eldur hefur verið laus þótt þeir séu búnir reykköfunartækjum (öndunarbúnaði).

Það er álit nefndarinnar að óeðlilegt sé að skip halli um og yfir 30° í langan tíma, 20 mínútur eða meira, meðan verið er að snúa skipinu á togi og skapi það hættu fyrir skip og skipverja.

 
 

 Tillögur í öryggisátt
 

Nefndin telur að við setningu nýrra reglna um öryggi á fiskiskipum hafi ekki verið hugsað um öryggi þeirra skipverja sem eru á skipum sem smíðuð voru fyrir gildistöku reglnanna. Vill nefndin vekja sérstaka athygli á því að fjöldi gildandi reglna er bæta eiga öryggi á íslenskum skipum koma ekki að neinu gagni nema varðandi skip sem smíðuð eru eftir gildistöku reglnanna. Afleiðingarnar eru þær að öryggi íslenskra sjómanna er mikið misskipt eftir því hver aldur skipanna er sem þeir eru á.

Telur nefndin að allar nýjungar í öryggismálum sjómanna eigi að gilda fyrir öll íslensk skip eftir 6 mánaða umþóttunartíma frá gildistöku laga og reglna, einnig fyrir eldri skip.

 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [44.211.239.1] þriðjudagur 07. febrúar 2023 14:15 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis