Hinn 17. janúar 2000 var m.b. Sveinn Benediktsson SU-77 í höfn í Grindavík til löndunar (var við loðnuveiðar). Veður: suðvestan kaldi, þokuloft.
Eftir að löndun lauk voru landfestar leystar og skipinu siglt áleiðis út úr höfninni. Á stjórnpalli voru skipstjóri og 1. stýrimaður. Þegar komið var af stað á leið út úr höfninni kom í ljós að leiðarljós er leiða inn í höfnina sáust ekki af stjórnpalli aftur út eins og þörf er á svo að sigla megi af öryggi út. Ástæða þess að ljósin sáust ekki var að toggálgi og hlerar á skut skipsins skyggðu á. Stýrimaðurinn sem átti að fylgjast með ljósunum að ósk skipstjórans, en skipstjórinn annaðist sjálfur að stýra skipinu, varð að fara aftur að skut skipsins til að sjá leiðarljósin. Þegar stýrimaðurinn kom aftur að skutnum náði hann ekki að koma boðum til skipstjórans um stöðu leiðarljósanna þar sem fjarlægðin var of mikil á milli þeirra og skipstjórinn heyrði ekki boð hans.
Stýrimaðurinn sneri þá við og var það ekki fyrr en hann var kominn upp á bátapallinn fyrir aftan stjórnpall sem hann gat komið boðum til skipstjórans um stöðu leiðarljósanna en í því strandaði skipið að vestanverðu í siglingarennunni út úr höfninni.
Skipstjóri tilkynnti þegar í stað um aðstæður til strandstöðvar og óskaði eftir aðstoð. Skömmu síðar kom björgunarbáturinn í Grindavík á vettvang. Skipið strandaði nálægt háflóði og var reynt að snúa skipinu með hliðarskrúfum þess og skömmu síðar losnaði það af strandstað. Var skipinu síðan siglt fyrir eigin vélarafli inn til Grindavíkur aftur þar sem skemmdir voru kannaðar. Reyndist vera gat inn í olíugeymi stjórnborðsmegin. Reynt var að dæla olíunni úr geyminum og skipinu síðan siglt til Reykjavíkur til viðgerðar.