Hinn 24. janúar 2000 var m.b. Arney KE-50 siglt út úr Sandgerðishöfn áleiðis á miðin til veiða með netum. Veður: hægv, ládautt, þokusúld.
Þegar siglt var úr höfn var lágsjávað eða nálægt fjöru. Skipstjóri var við stýrið en tveir skipverjar voru á stjórnpalli til að segja skipstjóra til um siglinguna, þ.e. fylgjast með leiðarmerkjum. Skömmu eftir að komið var út fyrir hafnarmúlana gekk þokubakki yfir og misstu aðstoðarmenn sjónir á leiðarmerkjum. Smá stund leið og sá þá skipstjóri til leiðarmerkja og að skipið var komið of vestarlega í siglingarrennunni. Hugðist hann snúa skipinu inn í rennuna aftur en í því strandaði það og sat fast. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að losa skipið strax af strandstað.
Skipið losnaði af strandstað fyrir eigin vélarafli 4 klst síðar þegar fallið hafði að.
Við rannsókn kom fram
að skipstjóri sagði að skömmu áður en hann sigldi út úr höfn hafi gengið yfir niðdimm þoka en birt aftur;
að samkvæmt skýrslum skipverja var skyggni takmarkað.
Nefndarálit
Nefndin telur að orsök strandsins hafi verið óaðgæsla við stjórn og siglingu skipsins.
Tillögur í öryggisátt
Nefndin vill vekja sérstaka athygli á að í þessu tilviki er það skipstjóri sem annast að stýra skipinu en felur öðrum skipverjum að fylgjast með leiðarmerkjum og segja sér til. Er þetta andstætt grundvallarreglum um störf skipstjóra þar sem ætlast er til að hann stjórni siglingu skipsins en taki ekki við boðum frá öðrum.