Þann 3. júní 2003 var Björg Jónsdóttir ÞH 321 á siglingu um 75 sml ANA af Dalatanga á leið í síldarsmuguna.
Kl. 07:45 fór brunavarnarkerfi skipsins í gang. Vakthafandi vélstjóri var staddur í borðsal en stýrimaður og vaktmaður í brú. Vélstjóri fór þegar upp í brú og athugaði hvaðan aðvörunin kæmi. Reyndist hún koma frá vélarrúmi og fór hann þegar í stað þangað. Þegar hann kom í vélarrúm sá hann ekkert athugavert í fyrstu en þegar hann fór að litast um fann hann væga brunalykt sem kom frá dælurými undir skorsteinshúsi. Hann fór að skoða það betur og opnaði dælurýmið og gaus þá upp eldur í rýminu á þeim stað sem pústurrörin lágu upp. Hann sprautaði úr einu slökkvitæki á eldinn og fór síðan upp í brú til stýrimanns sem gerði brunaútkall á áhöfnina.
Skipverjar tengdu brunaslöngur aftur á skipinu og fóru síðan niður í dælurýmið og skiptust á að fara inn og sprauta á eldinn. Þegar þeir höfðust ekki við lengur vegna hita var byrjað að sprauta inn í skorsteinshúsið utan frá og tókst þannig að ráða niðurlögum eldsins á um 20 mínútum.
Sjór safnaðist í vélarúmið vegna slökkvistarfana og var farið með reykköfunartæki niður til að lensa og ganga úr skugga um að ekki væri laus eldur annarsstaðar í skipinu.
Kl. 07:50 hafði skipstjóri samband við Örn KE l3 sem var nærstaddur og tilkynnti þeim um atburðinn sem tók þegar stefnu til Bjargar Jónsdóttur ÞH og tilkynnt var einnig um atburðinn til Nes-radío. Kl. 08:l5 lét skipstjóri Bjargar Jónsdóttir ÞH, Örn KE og Nes-radíó vita að búið væri að slökkva eldinn og hætta liðin hjá.
Kl. 11:00 var byrjað að keyra á hálfri ferð áleiðis á síldarmiðin en þá kom aftur upp smávægilegur eldur í einangrun á pústgrein. Greiðlega gekk að slökkva hann. Þá var skipið stöðvað til kl. l4:00 og var þá tekin ákvörðun um að halda áfram á síldarmiðin. Þegar líða tók á daginn jókst lykt og mengun frá pústurrörinu og um kl. l8:00 var ákveðið að halda til hafnar á Norðfirði og var komið þangað kl. 10:00 daginn eftir. Hafist var strax handa við að fjarlægja einangrun af pústurröri frá aðalvél og þá kom í ljós að nokkuð spilolíumagn var í einangruninni við pústgreinarnar.
Allmiklar reyk og sótskemmdir urðu í dælurýminu þar sem m.a. voru dælustöðvar fyrir kapalspil, færibönd á millidekki og fiskilúgu og skutrennuloka, ræsibúnaður fyrir nótaniðurleggjara og þvottavél fyrir vélstjóra. Einnig urðu nokkrar reyk- og sótskemmdir bakborðsmeginn aftan við dælurýmið þar sem var varahlutageymsla fyrir vél. Á vinnsludekki fyrir framan dælurýmið urðu einnig nokkrar reyk- og sótskemmdir. Í skorsteinshúsi var geymdur höfuðlínusónar sem senda þurfti til skoðunar. Í öllum þessum rýmum urðu einhverjar rafmagnsskemmdir.
Landhelgisgæsla Íslands var látin vita hvað um var að vera og björgunarskipið Hafbjörg á Neskaupsstað var sett í viðbragðsstöðu. Öll aðstoð var afturkölluð um kl. 08:40. |