RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
036/16  27717-30.08.17
035/16  28295-30.08.17
049/15  40251-31.05.17
044/15  38973-31.05.17
025/16  32095-31.05.17
071/16  49027-10.04.17
072/15  51026-24.02.17
034/15  36132-21.10.16
124/15  31983-20.10.16
023/16  26107-19.09.16
 2 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 010/04  - Sigurvin GK 61
  Sigurvin GK 61, fær á sig brotsjó og fer á hliðina   
 Heimsóknir: 81362 Uppfært: 23.09.04 

  Sigurvin GK 61
Skipaskr.nr.: 1943
Smíðaður: Guernesey England 1988 plast
Stærð: 10,20 brl; 12,60 bt
Lengd: 10,98 m Breidd: 3,51 m Dýpt: 1,80 m
Vél: Ford Mermaid 85,00 kW Árgerð: 1988
Annað: 
Fjöldi skipverja: 2 

Sigurvin©Hafþór Hreiðarsson 
 

 Atvikalýsing
 

Um kl. 11:00 þann 23. janúar 2004 var Sigurvin GK 61 á leið inn til hafnar í Grindavík.  Veður:  VSV 11 m/s og mikið brim.

 

Sigurvin GK 61 fór á sjó um kl. 08:00 um morguninn til netaveiða.  Veður var gott en þungur sjór.  Komið var að veiðarfærum um kl. 10:00 og skipverjar heyrðu þá í veðurfréttum að spáð væri stormi.  Vegna sjólags og stormspár var ákveðið að snúa til hafnar í Grindavík og sleppa því að draga netin.  Á leiðinni til hafnar heyrðu skipverjar í öðrum bátum, í gegnum talstöð, að byrjað væri að brjóta fyrir í innsiglingunni.

 

Þegar komið var í skurðinn (innsiglinguna) var skipstjórinn við stýrið og hinn skipverjinn með honum í brúnni við bakborðs brúargluggann.  Hann fylgdist með öldum og lét skipstjórann vita um þær.

 

Þegar Sigurvin GK var kominn á svæði sem nefnist Snúningur tóku þeir eftir að stór alda kom á eftir þeim og náði að taka bátinn með sér.  Báturinn flaut með henni og þegar hún brotnaði fylgdi báturinn með og steyptist á stefnið og fór á hliðina.  Þá var báturinn um það bil 200 m frá brimvarnargarðinum.

 

Báðir skipverjarnir voru inn í stýrishúsinu þegar aldan tók bátinn.  Þeir voru nokkra stund að koma sér út og á lunningu en þá maraði báturinn í hálfu kafi og öldur gengu yfir þá.  Eftir að hafa staðið þar um stund féll annar þeirra en gat hangið á annarri hendi á lunningunni en hinn gat aðstoðað hann aftur upp á hana.  Skömmu seinna gat annar skipverjinn sætt lagi og kafað inn í stýrishúsið eftir björgunarvestum og þrýst á neyðarhnapp sjálfvirka tilkynningarkerfisins STK.

 

Vegfarendur sem voru staddir skammt frá vesturgarði hafnarinnar urðu vitni að óhappinu.  Þeir hringdu strax í Neyðarlínuna, tilkynntu um atvikið og óskuðu eftir tafarlausum björgunaraðgerðum.

 

Björgunaraðgerðir:

 

Kl 11:17 barst björgunarsveitinni Þorbirni útkall rauður frá Neyðarlínunni. Björgunarsveitin sendi strax af stað björgunarskipið Odd V. Gíslason og slöngubátinn Hjalta Frey og menn fóru landleiðina út í Hópsnes ef skipbrotsmenn ræki á land. 

 

Þegar Oddur V var kominn út í innsiglinguna var mikið brim og braut öðru hvoru þvert yfir innsiglingarennuna.  Bátsverjar sáu fljótlega til annars skipbrotsmannanna í briminu og hinn hékk utan á gúmmíbjörgunarbát Sigurvins GK sem var á reki skammt utan við eystri brimvarnargarðinn.  Slöngubáturinn Hjalti Freyr kom að um svipað leyti og var ákveðið að hann reyndi að ná manninum.  Ekkert sást þá í hinn skipverjann. 

 

Björgunarsveitarmenn á sl.b. Hjalta Frey tókst að sæta lagi milli ólaga og komast meðfram brimvarnargarðinum að gúmmíbjörgunarbátnum.  Náðu þeir taki á skipbrotsmanninum en þar sem hann var í kuldasamfestingi, sem þyngdist mikið í sjónum, náðu þeir honum ekki um borð strax en héldu honum á síðunni meðan þeir komust út úr briminu.  Náðu þeir þá að draga hann um borð og héldu þegar með hann til hafnar þar sem sjúkraflutningamenn tóku á móti honum.

 

Meðan Hjalti Freyr fór inn til hafnar hélt áhöfnin á bs. Oddi V. áfram leit að hinum skipverjanum og sáu þeir hvar hann var á reki í briminu skammt frá þeim stað sem hinn fannst.  Oddur V. reyndi að komast að manninum en fékk á sig þrjú brot.  Sökum þess hve stutt var upp í brimvarnargarðinn var kallað í Hjalta Frey sem var á leið út aftur. 

 

Þegar Hjalti Freyr kom út sá áhöfnin á honum strax til skipbrotsmannsins í sjónum og með því að sæta lagi á milli ólaga tókst að ná honum og færa hann til hafnar.  Skipbrotsmennirnir voru báðir með meðvitund þegar þeim var bjargað en mjög kaldir og þrekaðir.  Þeir voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík. 

 

Fyrstu upplýsingar til björgunarsveitarinnar sögðu að þriggja manna áhöfn hefði verið á bátnum og héldu björgunarbátarnir áfram leit þar til staðfest hafði verið að skipverjarnir voru tveir.

 

Sigurvin GK 61:

 

Flakið af Sigurvin GK rak upp að eystri brimvarnargarðinum og barðist þar í briminu.  Björgunarsveitin kom tógi í bátinn og gat dregið hann með öflugum bíl sveitarinnar í betra skjól inn í kverkina þar sem brimvarnargarðurinn og sjávarkamburinn mætast.   
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að báðir skipverjar voru sannfærðir að þeir hefðu verið nákvæmlega í leiðarmerkjunum þegar óhappið átti sér stað.  Staðkunnugir telja hinsvegar ekki mikla hættu á svona brotum í rennunni við þessar aðstæður en það væri verra fyrir austan hana;
 • að samkvæmt öldudufli SÍ (Grindavíkurdufli) kl. 11:00 var kennialda (ölduhæð) 5,24 Hs (m), meðalsveiflutími 10,2 Tz(s) og öldulengd 164 m.  Þetta voru hæstu gildi 24 klst mælingar, þ.e. frá 23:00 22. janúar til 23:00 23. janúar 2004.  Ölduduflið er staðsett um 1,5 sjómílu frá umræddum stað;
 • að við ítrekaðar athuganir, sýnir ölduduflið um 20% meiri öldu en í skurðinum í SV-lægum áttum, en nánast það sama í S-lægum áttum.  Upplýsingar frá öldudufli er hægt að fá hjá hafnaryfirvöldum en fáir aðilar nýta sér það af óskýrðum ástæðum;
 • að skipstjórinn hafði ekki haft neitt samband við hafnaryfirvöld.  Hann kvaðst ekki hafa vitað um þá möguleika að hægt væri að fá upplýsingar frá öldudufli þar;
 • að óútgefin “þumalfingur-regla” hafnarinnar segir innsiglinguna varfærna fyrir þessa stærð báta þegar ölduhæð er komin í ca. 4,5 m;
 • að skipstjórinn taldi sig ekki vera vel kunnugan aðstæðum;
 • að skipstjórinn kvaðst ekki vera með nákvæma staðsetningu bátsins en stutt hafi verið í lygnan sjó;
 • að það hafði ekki komið til greina að sleppa því að fara þarna inn.  Skipverjar vissu að bátur hefði farið þarna inn skömmu áður;
 • að lestarlúga á bátnum var óskálkuð og var iðulega svoleiðis, en hún var alltaf á eins og í þessu tilfelli;
 • að skipstjóri sigldi á minnkaðri ferð vegna sjólags og til að auka stjórnhæfni bátsins.  Aldan hreif bátinn með sér á mikla ferð, hann steyptist fram, áleiðis fram yfir sig og á hliðina;
 • að ekki voru björgunarbúningar um borð heldur einungis flotvinnubúningar og björgunarvesti.  Skipstjóri taldi að það hefði verið jafn miklir möguleikar fyrir þá að komast í þá eins og björgunarvesti;
 • að óljóst var við björgunina hvað margir voru í áhöfn bátsins og ástæða til að ætla að þeir gætu verið þrír.  Við rannsókn kom fram að þeir voru að öllu jöfnu þrír í áhöfn en einn skipverjinn hafði ekki mætt til skips um morguninn;
 • að báðir skipbrotsmennirnir höfðu komist í björgunarvesti sem að öllum líkindum varð þeim til lífs.
 • að fram kom í framburði skipverja að þeir hefðu haft nægan tíma til að komast í björgunarbúninga en ekki voru neinir slíkir um borð enda þeirra ekki krafist.
 
 

 Nefndarálit
 

Orsök slyssins var vanmat á aðstæðum.  Nefndin átelur að skipstjórnendur kynni sér ekki og nýti sér allar upplýsingar sem hægt er að fá áður en lagt er í varhugaverðar og jafnvel fyrirséðar aðstæður.

 

Þá bendir nefndin stjórendum báta að hafa lúgur ávallt skálkaðar þar sem skip og bátar þurfa alltaf að vera undir það búin að sjór komi skyndilega á skip.

 

Nefndin telur að björgunarmenn á Hjalta Frey og Oddi V. hafi sett sig í mikla hættu við björgun skipbrotsmannanna.  Það er ljóst að lítið mátti út af bera svo að illa færi og má þar þakka góðri þjálfun bátsverja.  Hér var um að ræða mikið björgunarafrek.   
 

 Tillögur í öryggisátt
 

Nefndin telur ástæðu til að eftirfarandi atriði verði tekin til skoðunar.

 

 1. Að hafnaryfirvöld á hverjum stað verði skylt að koma, með viðeigandi hætti, öllum öryggisupplýsingum til viðskiptavina sinna.  Þá verði skipstjórnendum einnig skylt að bera sig eftir upplýsingum og fara eftir.  
 2. Að öll skip og bátar beri að láta vita um fjölda í áhöfn við brottför til Tilkynningarskyldu íslenskra skipa.
 3. Nefndin leggur til að öll íslensk skip skuli búin björgunarbúningum fyrir alla skipverja.  Komi þeir í stað kröfunnar um vinnuflotbúninga.
 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [44.201.95.84] mánudagur 26. september 2022 15:29 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis