Þann 12. mars 2002 var Hólmsteinn GK-20 að netaveiðum í Miðnessjó.Veður: NA gola, sólskin.
Um kl. 11:00 var sólin nýkomin upp yfir Keili og Miðnesheiði.Lokið var drætti einnar trossunnar og ætlaði skipstjóri að færa hana grynnra eða um hálfa lengd sína.Siglt var á hálfri ferð í SA og slegið meira af ferðinni, snúið til bakborða til að láta drekann fara og leggja í NV.Rétt eftir að snúningur hófst birtist bátur undan stjórnborðs bógnum.Skipt var á fulla ferð aftur á bak og svaraði skrúfan vel og minnkaði ferð, en stefnið rakst á bátinn miðjan.
Báturinn sem siglt var á reyndist vera Rafn KE-41, 7212, plastbátur af Sómagerð og var hann á reki á handfæraveiðum.Rafn KE-41 var að veiðum um morguninn vestur af Garðskaga.Þegar fór að halla fram á morguninn var haldið nokkuð sunnar og í Miðnessjó og færum rennt.Skipstjórinn sá til Hólmsteins sem var að draga netatrossu skammt frá.Bátinn rak í góðviðrinu og skipstjóri var í önnum við að sinna færunum þegar Hólmsteini var siglt á stjórnborðssíðuna á Rafn.
Kannaðar voru skemmdir á báðum bátunum en engar skemmdir voru á Hólmsteini. Skemmdir á Rafni voru á stjórnborðssíðu en enginn leki kom að bátnum. Báðir bátarnir héldu áfram veiðum.
Við rannsókn kom fram
að skipverjar á Hólmsteini voru nýbúnir að draga trossu og ætlaði skipstjóri að leggja á sama stað en færa hana um hálfa lengd sína austar eða nær landi;
að útsýni úr brú Hólmsteins er truflað af tækjum í brúnni, sem byrgjaútsýni til bakborða frá þeim stað sem skipstjóri stóð;
að blint horn er úr stjórnborðs stýrishúsglugga yfir bakborðsbóg, vegna þess að skotstóll með gúmmíbjörgunarbát er bakborðsmeginn á hvalbak;
að skipstjóri stóð í þessum glugga og fylgdist með siglingunni;
að eftir að drætti lauk var snúið til bakborða og siglt á hálfri ferð til að komast í lagningarstöðu með færið og baujuna í eftirdragi;
að skipstjórinn á Hólmsteini hafði ekki orðið var við bát í námunda við sig;
að ákoman var stjórnborðsmegin rétt aftan við stýrihús Rafns, við spilfestinguna;
að hvorugur bátanna var með dagmerki uppi til merkis um að þau væru að fiskveiðum;
að ekki náðist í skipstjóra né útgerðamann Rafns KE.
Nefndarálit
Nefndin telur ástæðu óhappsins vera þá að ekki hafi verið gætt fyllstu varúðar við siglingu Hólmsteins, m.a. með tilliti til þess að útsýni úr brú Hólmsteins var takmarkað vegna tækja í brú og björgunarbúnaðar á hvalbak.
Nefndin minnir á að skip að fiskveiðum eigi að hafa uppi viðeigandi dagmerki.
Tillögur í öryggisátt
Nefndin bendir á mikilvægi þess að óhindrað útsýni sé úr brú / stýrishúsi skipa og að við árlegar skoðanir skipa að þessir þættir séu skoðaðir og gerðar athugasemdir ef útsýnið er skert.