RNS.IS    
English translation of regulationsEnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
Skýrslur (114)
091/01  52610-23.09.04
112/01  47301-23.09.04
097/01  47877-23.09.04
007/02  55402-23.09.04
015/02  44318-23.09.04
027/02  46165-23.09.04
046/02  46817-23.09.04
049/02  47468-23.09.04
111/02  48616-23.09.04
025/03 47688-23.09.04
 10 af 12   
Til bakaTil bakaPrentvæn útgáfa 025/03  - Röst SH 134
  Röst SH 134, leki kemur á siglingu og skipið sekkur, tveir skipverjar bjargast   
 Heimsóknir: 47689 Uppfært: 23.09.04 

  Röst SH 134
Skipaskr.nr.: 1317
Smíðaður: Skagaströnd 1973 Eik
Stærð: 29,60 brl; 31,00 bt
Lengd: 17,40 m Breidd: 4,48 m Dýpt: 2,05 m
Vél: Cummins 224,00 kW Árgerð: 1987
Annað: 
Fjöldi skipverja: 2 

Röst©Gunnar Jónsson 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 19. mars 2003 var Röst SH 134 á siglingu út af Snæfellsnesi á leið frá Stykkishólmi til Reykjavíkur. Veður: SV- 5 til 8 m sek. talsverður sjór.

Lagt var af stað um kl. 10:30 um morgunin og sigld grunnleið. Þegar farið var fyrir Öndverðarnes byrjaði skipið að hnalla upp í þykka hafölduna og hvítnaði í einstaka báru. Skipið kjagaði suður með útnesinu og þegar komið var um eina sjómílu suður fyrir Skálasnagavita urðu skipverjar varir við hljóð sem þeir könnuðust ekki við. Þetta var einskonar suð og auk þess virtist koma gangtruflun í vélina og draga af henni. Skipstjórinn lyfti upp hleranum að vélarrúminu og litu báðir skipverjar niður og við blasti sjómettað vélarúmið með sjó sem náði upp á miðja vél. Hann lét hlerann falla að stöfum, sló af vélinni og kúplaði frá skrúfu á meðan hinn skipverjinn fór aftur í kortaklefa og sótti björgunarbúninga.

Þegar ferðin var farin að mestu af skipinu skaut skipstjóri úr gúmmíbjörgunarbáti, sem geymdur var upp á stýrishúsi. Hann dró bátinn að stjórnborðs síðunni og skipaði vélstjóranum að fara í bátinn en þá var skipið farið að falla frá vindi til bakborða. Skipstjórin batt bátinn við krussholtið og hugðist fara inn í stýrishús til að senda út neyðarkall en hætti við það og í staðinn teygði hann sig í björgunarbúninginn sem lá á gólfinu fyrir innan dyrnar. Skipið lagðist æ meira til bakborða og fór þá skipstjórinn í gúmmíbátinn einnig og sagði vélstjóranum að skera strax á fangalínuna. Skipið lagðist enn meira og alveg á stýrishús en þar stöðvaðist veltan eitt augnablik en hélt síðan áfram og skipið snaraðist á hvolf. Skipverjar fóru í björgunarbúninganna og annar þeirra setti í gang neyðarsendi bátsins og skaut upp einum neyðarflugeld.

Á meðan skipið lá á hliðinni blasti stjórnborðssíða og botn við augum skipverja og sáu þeir svartar rákir á milli borða þar sem tróðið vall út á stóru svæði með hvisshljóði og sjóýringu þegar aldan flanaði upp á síðuna og botninn. Eftir að skipið var komið á hvolf lá skuturinn í kafi og seig sífellt meira. Með sog- og hvisshljóðum sökk Röstin SH niður með stefnið upp um kl. 16:50.

Skipverjar biðu í gúmmíbátnum eftir björgun, sem rak undan vindi og sjó fyrst norður með Svörtuloftum og síðar í stefnu upp að bjarginu fyrir norðan Skálasnagavita. Skipverjar skutu upp fleiri flugeldum ásamt að kveikja á reykblysum er þeir sáu til flugvélar og skips norðar og utar.

Skipverjum var bjargað um borð í grænlenska loðnuskipið SIKU OWBK og síðan yfir í björgunarbátinn Hjálmtý frá Ólafsvík sem flutti þá til Rifshafnar.

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að skipið hafði legið í Stykkishólmshöfn um nokkra mánaða skeið;
 • að vélin var sett reglulega í gang á legutímanum til að hlaða rafmagni á rafgeyma fyrir sjálfvirka rafmagns lensidælu. Við þessar ítrekuðu gangsetningar á vélinni safnaðist olía og sót í afgastúrbínu og -göngum hennar;
 • eftir brottför frá Stykkishólmi var siglt á hægri ferð í byrjun á meðan vélin var að hitna og olíusót brann úr útblástusrgöngum hennar;
 • að þegar komið var vestur undir Melrakkaey við Grundarfjörð datt skipið út af skjá STK. Tilkynningarskyldan hafði samband við skipið á rás 16 og óskaði eftir upplýsingum um hvort sími væri um borð og var þeim gefið upp GSM símanúmer; að þegar skipið var statt á Skarðsvík fór vélstjóri í vélarrúm til eftirlits í síðasta skipti áður en skipið sökk, ekkert óeðlilegt vakti athygli hans og fór hann upp eftir skamma veru þar;
 • að þegar beygt var fyrir Öndverðarnes sigldu þeir beint upp í ölduna sem einstaka sinnum braut á og minnkaði skipstjórinn þá ferð og sigldi undir 7 hnúta hraða;
 • að skv. veðurstöðinni á Gufuskálum var veður kl. 16:00 A-8 m/sek, kl. 17:00 S-5 m/sek, kl. 18:00 V-5 m/sek.;
 • að sögn skipstjóra var sjór kominn yfir stóra rafalinn framan á aðalvélinni og báðar lensidælurnar bakborðs megin við hana. Sjórinn var kominn upp undir rafalinn bakborðsmegin á aðalvél og gusaðist sjórinn af reimunum og myndaði þykkt sjómistur í vélarrúminu. Af gusugangi reimana kom suðið sem heyrðist upp í stýrihús;
 • að grænlenska loðnuskipið Siku var á siglingu inn Kolluál. Að sögn skipstjóra þess sá hann til siglingar Rastar SH um kl. 15:00 og var hún þá stödd við Brimnes og stefndi í vestur;
 • að komið hafði sjór í Röst SH 22. mars 2002 þegar skipið lá í Grundarfjarðarhöfn en slökkviliðið dældi þá úr skipinu. Við skoðun skipaskoðunarmanns þá ásamt athugasemda forvera hans í starfi, var þess getið í eftirlitsbók að athygli beindist að skammdekksplanka sem gert hafði verið við áður. Þegar skipið var tekið í slipp til skoðunar í maí fannst ekki hvar leki hafi komið að því;
 • að sjóinntök er inn úr báðum síðum í gegnum botnloka. Stjórnborðsmegin er inntakið aðallega notað fyrir kælingu véla. Bakborðsmegin er inntakið aðallega stillt til notkunar fyrir sjó í gegnum spúldælu;
 • að tvívirkir skiptilokar eru á báðum lögnunum þar sem hægt er að skipta af botnkrana yfir á soglögn úr kjalsogi;
 • að reynsla er fyrir því að skiptilokarnir geta staðið opnir af sjóinntaki og jafnframt úr kjalsogi. Þegar svona er gengið um lokana rennur sjór inn í skipið;
 • að eftir að fyrri leki kom til var lítil brunndæla (mjattlari) með sjálfvirkri ræsingu sett í skipið og hélt hún því að öllu jöfnu þurru. Dælan var tengd í gegnum flotrofa í kjalsogi sem var tengdur framhjá eiginlegu rafkerfi skipsins og beint á 24 volta rafgeymasett þess. Dælan var því óháð rafkerfi skipsins og var virk þó rafmagn væri tekið af skipinu. Ekki var hægt að sjá á dælunni hvernig hún vann, því var ekki hægt að fullyrða hvort einhver leki var á skipinu í legunni;
 • að í skipinu voru tvær aðrar dælur og voru þær reimdrifnar af aðalvél, á þeim báðum var tenging við reimskífu með segulkúplingu. Rafmagn á segulkúplingarnar kom af rafmagnsneti skipsins og rofnaði straumur þegar hann var tekinn af. Stjórnun var í stýrishúsi, og var önnur dælan eingöngu notuð sem lensidæla og var kúpling hennar tengd í gegnum tvívirkan rofa handvirkt eða sjálfvirka ræsingu með flotrofa í kjalsogi. Við sjálfvirka stillingu var ljós í stýrihúsi sem gaf til kynna stöðu dælunnar. Hinni dælunni var eingöngu stjórnað með handvirkum rofa og var hún ávallt notuð sem spúldæla. Hana var einnig hægt að nota sem lensidælu en þá þurfti að skipta tvívirkum skiptikrana í kjalsogi, sem áður er nefndur. Þessi dæla var ekki notuð sem lensidæla í þetta skipti;
 • að lensidælan var stillt á sjálfvirkt en skipverjar veittu því ekki athygli hvort ljósið logaði og ekki er vitað hvort dælan hafði fengið boð um að dæla;
 • að sögn skipverja hafði lensibúnaður skipsins ekki bilað síðan hann var endurbættur í mars 2002;
 • að segulkúplingar kúplast út ef sjór kemst að rafmagni og veldur útleiðslu, hvort sem öryggi fer eða annar bruni verður í kerfinu. Þessar segulkúplingar eru steyptar inn í kúplingshúsið og þola því að fara í kaf um tíma;
 • að skipið var tekið í slipp í febrúar og aftur í maí 2001. Í bæði skiptin var slegið í byrðing en ekki voru til upplýsingar hversu mikið;
 • að sögn skipasmíðastöðvarinnar, sem smíðaði skipið og veitti því þjónustuviðhald lengst af, var skipið ávallt vel umgengið og í góðu ástandi. Við síðustu skoðun í maí 2002 var ekkert að finna að skrokknum og var farið yfir tróðið og fundust nokkrir staðir þar sem þurfti að slá í stuð en hvergi á milli planka;
 • að hvergi voru sýnilegir ryðtaumar á síðum eða botni undan naglahausum sem gáfu tilefni til að ætla að tæring væri komin í þá;
 • að ekki hafði borið á útleiðslu á rafmagni í skipinu;
 • að ekki hafði borið á óeðlilegri tæringu í sjólögnum;
 • að sögn skipstjóra hafði hann verið á skipi sem sökk skyndilega og því þorði hann ekki að senda vélstjórann niður í vélarrúm til að bregðast við hættunni. Hann óttaðist að vélstjórinn lokaðist inni í skipinu;
 • að sögn beggja skipverja var gúmmíbáturinn í um fjögurra metra fjarlægð frá síðu og botni skipsins þar sem það lá á hvolfi áður en það sökk og gátu þeir því virt hann fyrir sér;
 • að engin lekaviðvörun var í skipinu;
 • að öllum líkindum hefur reimdrifna lensidælan byrjað að lensa úr skipinu þegar flotrofinn kúplaði henni inn sjálfvirkt, en að sögn skipverja tóku þeir ekki eftir því hvort kveiknaði ljós sem gefur það til kynna;
 • að fyrsta tilkynning um slysið kom frá flugvél á flugi yfir Hvammsfirði á tíðninni 121,5 MHz og barst Flugmálastjórn, sem kom boðum til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands kl. 16:50.
 
 

 Nefndarálit
 

Nefndin getur ekki fullyrt um orsök lekans sem kom að skipinu en telur þó mestar líkur á að los á tróð hafi verið fyrir hendi og það aukist vegna áreynslu á bol þess þegar komið var fyrir Öndverðarnes. Hugsanlega hefur þetta vandamál einnig orsakað lekann árið áður en orsök hans fannst aldrei. Eftir það var sett sjálfvirk brunndæla (mjattlari) sem auðveldlega hefur getað leynt fyrir mönnum mögulegan leka.

Nefndin telur minni líkur á að lekinn hafi orsakast af því að opið hafi verið á tvennan hátt á tvívirku skiptilokunum við botnloka. Slíkur leki hefði verið lengur að ná þeirri hæð í rýminu þar til vart varð við hann. Líkur eru til að brunndælan og aðal austurdælan, sem báðar voru búnar sjálfvirkum ræsibúnaði hefðu haft við svona innrennsli sjávar.

 
 

 Tillögur í öryggisátt
 

Nefndin vill koma þeirri ábendingu til skipstjórnenda og útgerða tréskipa að hafa betra eftirlit með skipum sínum hvað varðar leka. Þar sem sjálfvirkar dælur eru látnar vakta austur dæla þær oft á tíðum án vitundar skipverja. Nefndin bendir stjórnendum á að stöðva dælurnar með reglubundnu millibili og kanna hvort austur komi inn í skipið.

Þar sem leki kemur fram á skipstjóri að láta fara fram leit að lekanum og í framhaldi á útgerð að sjá til þess að skipið sé þétt á viðeigandi hátt.

 
 
Prentvæn útgáfa
  Til baka Til baka Upp Upp 
EnglishFlokkunFundirLeitNefndinTenglasafnTilkynnaTillögurTölfræði Upphafssíða
  
Velkomin(n) [18.207.157.152] mánudagur 08. ágúst 2022 15:11 GMT
Flugvallarvegi 7 sími: +(354) 511 6500
101 Reykjavík fax: +(354) 511-6501
Iceland e-mail: RNSARNSAis