Hinn 23. febrúar 2000 var m.s. Hvítanesi siglt frá bryggju á Djúpavogi eftir losun á salti. Veður: austan 4-5 vindstig, snjókoma en skyggni ágætt, sjólítið.
Þegar verið var að losa landfestar skipsins á Djúpavogi tilkynnti hafnarvörðurinn yfirstýrimanni skipsins um að ysta baujan væri ljóslaus. Yfirstýrimaðurinn tilkynnti skipstjóra um upplýsingar hafnarvarðar. Skipstjóri tók sjónauka og leit yfir innsiglinguna. Hann sá innstu og næstinnstu baujurnar og taldi að um vitleysu væri að ræða og hann myndi sjá ystu baujuna þegar skipið kæmi út í innsiglinguna.
Var skipinu siglt frá bryggjunni og á stjórnpalli var skipstjóri við stýrið en bátsmaðurinn úti á brúarvæng að fylgjast með leiðarmerkjum en þau sáust ekki frá þeim stað er skipstjóri var á við stjórntækin (vélar og stýri). Þegar út í innsiglingarrennuna var komið var stefnan sett á 029°. Siglt var fram hjá innstu baujunni á bakborða og næstu bauju, en ekki sá skipstjóri ystu baujuna.
Bátsmaðurinn sagði skipstjóra að skipið væri í leiðarlínu innsiglingarmerkja en um það leyti komu boð frá yfirstýrimanni sem var frammi á bakka um að baujan væri beint fram undan stefni skipsins og 30 metrar í hana. Skipstjórinn lagði stýrið 20° til stjórnborða en um það leyti fannst titringur á skipinu og var ljóst að skipið hafði tekið niðri. Þar sem skipið skreið áreynslulaust frá grynningunni ákvað skipstjórinn að koma skipinu á dýpra vatn og var siglt út úr innsiglingarrennunni.
Skipstjóri hafði samband við Landhelgisgæsluna og Hornafjarðarradíó og tilkynnti um atburðinn. Síðan var skipinu snúið einn hring til að athuga hvort um olíuleka væri að ræða en ekki varð vart við olíuleka. Mæld var vökvahæð í botngeymum og kom þá fram að sjór var komin í botnþrær nr. 5 sem voru notaðar undir olíu (marindiesel) en áttu að vera tómir.
Í samráði við Landhelgisgæsluna var skipinu siglt til næstu öruggrar hafnar, sem var Neskaupstaður. Við nánari skoðun búnaðar kom í ljós olíuleki á stýrisdælu og brotinn bolti en stýrið virkaði eðlilega.
Eftir að skipið var komið til Neskaupsstaðar var fenginn kafari til að kanna skemmdir á botni skipsins. Reyndust vera rifur á botngeymum nr. 5 (olíugeymum), svo og á sorageymir.