009/04  - Þerney RE 101
  Þerney RE 101, óhapp við sjósetningu léttbáts  
 

  Þerney RE 101
Skipaskr.nr.: 2203
Smíðaður: Kristiansand Noregi 1992 stál
Stærð: 1.199,00 brl; 1.899,00 bt
Lengd: 64,00 m Breidd: 13,00 m Dýpt: 8,85 m
Vél: Wärtsilä 2.460,00 kW Árgerð: 1992
Annað: 
Földi skipverja: 28


Þerney©Jón Páll Ásgeirsson 
 

 Atvikalýsing
 

Þann 17. janúar 2004 var Þerney RE 101 á hægri ferð fyrir utan Bolungarvík.. Veður:  NA 8 til 10 m sjó lítið og 10° frost.

 

Setja átti í sjó léttbát og koma tveimur viðgerðarmönnum í land og biðu skipverjar heimildar til sjósetningar.  Skipstjóri var að snúa skipinu svo sjósetning yrði til hlés og ætlaði að hafa það ferðlaust.  Þegar svo var komið gaf hann fyrirmæli um að sjósetning gæti átt sér stað en þá var honum tilkynnt að bátsverjar væru farnir.  Hann leit aftur með síðunni og sá þá hvar báturinn og áhöfn hans hékk við síðuna og mennirnir að reyna að koma sér upp síðustiga skipsins.

 

Við sjósetningu komst sjór í bátinn og við það stakkst hann niður á stefnið og endaði þannig mikið til lóðréttur.  Áhöfn hans átti í miklum erfiðleikum með að komast upp síðustigann á skipinu vegna klaka sem á hann hafði hlaðist.  Annar farþeganna klemmdist á milli fremri hanafóts og bátsins.

 
 

 Við rannsókn kom fram
 
 • að þegar léttbátnum var slakað í sjó var ferð á skipinu og sjósetningin fór fram á kulborða.  Báturinn saup sjó við sjósetningu og hálffyllti en spilið hafði ekki afl til að lyfta bátnum aftur við þessar aðstæður;
 • að sögn skipverja sem var staddur í brú taldi hann sig hafa fengið fyrirmæli frá skipstjóra um að það væri í lagi að láta bátinn fara og kom hann því áleiðis til bátsverja sem hófu sjósetningu.  Skipstjórinn kannaðist ekki við þessi fyrirmæli;
 • að vinnureglur um sjósetningu léttbáts voru munnlegar og að sögn skipstjóra kveða þær meðal annars á um að bátsverjar sjósetji ekki fyrr en hann heimili hana með skipsflautunni eða öðrum merkjum frá stjórnpalli.  Skipstjóri sagði að þessar reglur hafi verið þverbrotnar;
 • að einungis voru valdir skipverjar látnir umgangast léttbátinn sem höfðu verið æfðir til þess.   Svo var einnig í þetta skiptið;
 • að langlína var ekki höfð til staðar og var því ekki notuð við sjósetningu í þessu tilfelli.  Vinnureglur (munnlegar) kváðu um að hún væri ekki notuð þegar skipið væri ferðlaust en notuð þegar sjósett var á ferð, þá væri hún yfirleitt fest í polla frammá skipinu;
 • að skipverjar töldu að “fenderlisti” ofan sjólínu á síðunni hefði ekki átt þátt í óhappinu;
 • að sögn skipstjóra olli misskilningur ótímabærri sjósetningu;
 • að báturinn var ávallt þungur í meðförum og átti það til að taka inn sjó við sjósetningu.  Hann átti einnig til að steypast á stefnið ef í hann komst sjór og voru mönnum ljósir þessir eiginleikar hans;
 • að spilmaður taldi að báturinn hafi í þessu tilfelli verið sjósettur áfallalaust og réttur langskips með síðunni en tekið inn sjó meðan verið var að reyna að húkka gilskróknum úr sylgjunni;
 • að bátsverjar sögðu að vélin hafi verið gangsett áður en bátnum var slakað og báturinn hafi komið svo hart niður (hugsanlega á öldutopp) að bátsverjinn í miðrúmi, sem hélt í krókinn, féll fram í.  Hann hefði aldrei haft færi á að losa krókinn úr sylgjunni og varð síðan undir farþegunum þegar bátinn fyllti.  Bátsformaðurinn kvaðst hafa kúplað en ekki haft færi á að keyra með síðunni áður en það tók í gilsinn og bátnum hvolfdi;
 • að flotholt voru á síðum léttbátsins, eitt þeirra var sprungið þegar honum var náð um borð;
 • að sögn skipstjóra var þetta atvik bara klúður og þakka mátti fyrir að ekki fór verr.
 
 

 Nefndarálit
 

Orsök óhappsins var ótímabær sjósetning bátsins auk þess að ekki var notuð langlína.  Mikilvægt er að fastar verklagsreglur séu um sjósetningu léttbáta þannig að ekki verði um misskilning milli manna um hvenær heimilt er að sjósetja.

 
 

 Tillögur í öryggisátt
 

Í ljósi tíðra óhappa í meðförum léttbáta telur nefndin ástæðu til að leggja fram eftirfarandi tillögur í öryggisátt:

 

 1. Að námskeið fyrir skipverja sem annast og meðhöndla léttbáta verði skylduð.
 2. Að skriflegar verklagsreglur um sjósetningu léttbáta verði til í öllum skipum sem búin eru slíkum bátum.