-
að þegar léttbátnum var slakað í sjó var ferð á skipinu og sjósetningin fór fram á kulborða. Báturinn saup sjó við sjósetningu og hálffyllti en spilið hafði ekki afl til að lyfta bátnum aftur við þessar aðstæður;
-
að sögn skipverja sem var staddur í brú taldi hann sig hafa fengið fyrirmæli frá skipstjóra um að það væri í lagi að láta bátinn fara og kom hann því áleiðis til bátsverja sem hófu sjósetningu. Skipstjórinn kannaðist ekki við þessi fyrirmæli;
-
að vinnureglur um sjósetningu léttbáts voru munnlegar og að sögn skipstjóra kveða þær meðal annars á um að bátsverjar sjósetji ekki fyrr en hann heimili hana með skipsflautunni eða öðrum merkjum frá stjórnpalli. Skipstjóri sagði að þessar reglur hafi verið þverbrotnar;
-
að einungis voru valdir skipverjar látnir umgangast léttbátinn sem höfðu verið æfðir til þess. Svo var einnig í þetta skiptið;
-
að langlína var ekki höfð til staðar og var því ekki notuð við sjósetningu í þessu tilfelli. Vinnureglur (munnlegar) kváðu um að hún væri ekki notuð þegar skipið væri ferðlaust en notuð þegar sjósett var á ferð, þá væri hún yfirleitt fest í polla frammá skipinu;
-
að skipverjar töldu að “fenderlisti” ofan sjólínu á síðunni hefði ekki átt þátt í óhappinu;
-
að sögn skipstjóra olli misskilningur ótímabærri sjósetningu;
-
að báturinn var ávallt þungur í meðförum og átti það til að taka inn sjó við sjósetningu. Hann átti einnig til að steypast á stefnið ef í hann komst sjór og voru mönnum ljósir þessir eiginleikar hans;
-
að spilmaður taldi að báturinn hafi í þessu tilfelli verið sjósettur áfallalaust og réttur langskips með síðunni en tekið inn sjó meðan verið var að reyna að húkka gilskróknum úr sylgjunni;
-
að bátsverjar sögðu að vélin hafi verið gangsett áður en bátnum var slakað og báturinn hafi komið svo hart niður (hugsanlega á öldutopp) að bátsverjinn í miðrúmi, sem hélt í krókinn, féll fram í. Hann hefði aldrei haft færi á að losa krókinn úr sylgjunni og varð síðan undir farþegunum þegar bátinn fyllti. Bátsformaðurinn kvaðst hafa kúplað en ekki haft færi á að keyra með síðunni áður en það tók í gilsinn og bátnum hvolfdi;
-
að flotholt voru á síðum léttbátsins, eitt þeirra var sprungið þegar honum var náð um borð;
- að sögn skipstjóra var þetta atvik bara klúður og þakka mátti fyrir að ekki fór verr.